Þórður Snær Júlíusson fyrrum ritstjóri Heimildarinnar og frambjóðandi Samfylkingarinnar, hefur ákveðið að taka ekki þingsæti fari svo að alþingiskosningarnar þróist á þann veg. Þórður greinir frá þessu í yfirlýsingu á Facebook nú í morgun.
Ástæðan er gömul 17-20 ára bloggskrif hans sem grafin voru upp í vikunni þar sem hann fer ófögrum orðum um konur. Þórður segist bera ábyrgð á öllum þeim skrifum sem hafi birst í fjölmiðlum síðustu daga, þau hafi verið röng, meiðandi og skaðleg og hann skammist sín djúpt fyrir þau.
„Ég bið alla sem hafa orðið fyrir áhrifum af þeim, og bara alla yfir höfuð, aftur og ítrekað, afsökunar á því að hafa skrifað með þessum hætti. Ég geri mér með öllu grein fyrir því að svona skrif og svona sjónarmið hafa valdið miklum skaða í fortíð, nútíð og framtíð og að þau skipti máli í að kvenfjandsamleg menning hefur þrifist,“ skrifar hann.
„Fyrri afsökunarbeiðni mín og ábyrgðartaka átti ekki að vera sett fram með léttúð. Hún, líkt og þessi, er einlæg og án fyrirvara,“ skrifar hann.
Kristrún Frostadóttir, formaður flokksins, sagði í færslu á Facebook að skrif Þórðar endurspegluðu engan veginn stefnu flokksins en að hún teldi rétt að gefa fólki tækifæri að bæta sitt ráð.
Þórður Snær segist hafa eytt skrifunum fyrir um sautján árum því hann hafi gert sér grein fyrir að þau voru ekki sniðug og ögrandi heldur vond, meiðandi og skaðleg, og ættu ekki að rata fyrir augu neins. Það hafi komið honum í opna skjöldu að skjáskot af síðunni hafi lifað í vefsöfnum.
Hægt er að sjá afsökunar beiðni hans á Facebooksíðu þórðar.