Ummæli Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, um aðskilnað ríkis og kirkju í morgun hafa vakið töluverða athygli. Bjarni sagði litla sanngirni í málflutningi þeirra sem tala hæst um málið og að það sé yfirleitt ungt fólk sem hefur ekki lent í áföllum sem styður aðskilnað ríkis og kirkju. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að skoðun ungs fólks sé alveg jafngild þó svo að þau hafi ekki lent í áföllum.
Bjarni lét ummælin falla í ræðu við setningu kirkjuþings um helgina. Hann greindi frá því að frá hans hálfu stæði ekki til að fjárframlög til kirkjunnar skerðist frá því sem nú er.
„Það er lítil sanngirni í málflutningi sumra þeirra sem hæst tala um aðskilnað ríkis og kirkju og um að best færi á því að ríkið hætti algjörlega að hafa nokkur afskipti af fjármálum neinna trúfélaga,“ segir hann.
Oft virðist manni sem málflutningur af þessu tagi stafi einkum frá mjög ungu fólki, sem ekki hefur lent í neinum áföllum og hefur ekki séð það starf sem kirkjan vinnur við sálusorgun og ýmis konar félagsþjónustu
Þorgerður Katrín er ein af þeim sem hefur tjáð sig um ummæli Bjarna. Hún svaraði honum á Twitter í dag og sagði að hvort sem ungt fólk hafi lent í áföllum eða ekki sé þeirra skoðun jafngild þeirra sem eldri eru og bætti við: „Fyrir utan að sáluhjálpin sem kirkjan sinnir, er væntanlega ekki háð því að kirkjan sé ríkisrekin.“
Hvort sem ungt fólk hefur lent í áföllum eða ekki, er þeirra skoðun jafngild þeirra sem eldri eru. Fyrir utan að sáluhjálpin sem kirkjan sinnir, er væntanlega ekki háð því að kirkjan sé ríkisrekin. https://t.co/CUR1NBkjLQ
— þorgerður katrín (@thorgkatrin) November 5, 2018
Fleiri hafa tjáð sig um málið í dag, þar á meðal pistlahöfundurinn Hrafn Jónsson. Hrafn furðar sig á rökfærslu Bjarna í einu tísti og bætir svo við að ef að Bjarni hafi áhyggjur af sáluhjálp fólks mætti hann frekar beita sér fyrir því að koma sálfræðiþjónustu inn í sjúkratryggingakerfið.
Ahh ég skil, þau sem gagnrýna ótrúlega skrítið opinbert samband á milli ríkis og trúfélags gera það bara af því að þau eru börn sem hafa aldrei þurft að ganga í gegnum neitt. pic.twitter.com/pLgRcBOxoO
— Hrafn Jónsson (@hrafnjonsson) November 5, 2018
Ef að Bjarni Ben hefur svona miklar áhyggjur af sáluhjálp fólks væri kannski ráð fyrir hann að beita sér frekar fyrir því að koma sálfræðiþjónustu inn í sjúkratryggingakerfið.
— Hrafn Jónsson (@hrafnjonsson) November 5, 2018