Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipt um skoðun í flugvallarmálinu. Árið 2011 vildi hún að Reykjavíkurflugvöllur yrði framtíðarmiðstöð innanlandsflugs en eftir að hafa kynnt sér málið betur segist hún sannfærð um að framtíðarstaðsetning fyrir innanlandsflug sé ekki í Vatnsmýrinni.
Þorgerður átti sæti í Rögnu-nefndinni sem er starfshópur um flugvallarkosti í höfuðborginni. Árið 2015 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að hagkvæmast væri að byggja flugvöll í Hvassahrauni. Nefndin telur að allir staðirnir sem nefndir eru í skýrslunni geti rúmað starfsemina sem er nú í Vatnsmýri.
Þorgerður var meðflutningsmaður Jóns Gunnarssonar að þingsályktunartillögu árið 2011 um að Reykjavíkurflugvöllur yrði framtíðarmiðstöð innanlandsflugs. Hún er á annarri skoðun í dag eins og kom skýrt fram á Twitter á dögunum:
Framtíð innanlandsflugs er ekki í Vatnsmýri. Að ætla annað er sóun á dýrmætum tíma og peningum.
— þorgerður katrín (@thorgkatrin) June 21, 2017
Í samtali við Morgunblaðið í dag segir Þorgerður ekki vandræðalegt að skipta um skoðun í málinu. „Nei, það er alls ekkert vandræðalegt fyrir mig,“ segir hún,“ segir hún í Morgunblaðinu.
Í millitíðinni hef ég verið í Rögnu-nefndinni og ég er búin að kynna mér málið ofan í kjölinn og hef í kjölfar þess skipt um skoðun
Þorgerður er sannfærð um að framtíðarstaðsetning fyrir innanlandsflug sé ekki í Vatnsmýrinni. „Þannig að það er hvorki óþægilegt né vandræðalegt fyrir mig að hafa skipt um skoðun í þessum efnum,“ segir hún í Morgunblaðinu.
„Mín skoðun í þessu máli er mjög skýr. Við eigum að horfa til framtíðar. Unga fólkið er ekki að fara að sjá framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni og ég held að það sé kominn tími til þess að við sem eldri erum hlustum á sjónarmið unga fólksins.“