Þorsteinn Haukur Harðarson framkvæmdarstjóri knattspyrnufélagsins Víkings Ólafsvík birti í vikunni skjáskot af skilaboðum á Twitter frá reiðum útlendingum sem höfðu veðjað á liðið en tapað talsverðum fjárhæðum. Hann segir í samtali við Nútímann að þetta gerist í hvert skipti sem óvænt úrslit verði í leikjum liðsins.
„Veðmálaheimurinn er orðinn svo stór að menn úti í heimi eru farnir að veðja á leiki hjá 2. flokk kvenna hér á landi,“ segir Þorsteinn og bætir við að vitneskja útlendinga á íslenskum fótbolta sé ekki nógu mikil sem verði til þess að stuðlarnir á liðunum séu oft ekki réttir. Það verði síðan til þess að menn tapa fjárhæðum þegar veðjað er á úrslita leikjanna.
Félagið, og hann sjálfur, fá skilaboð frá mönnum sem eru mjög reiðir og ósáttir við úrslit leikja þegar þau eru óvænt.
„Ég man þegar við vorum í Pepsi-deildinni í fyrra og unnum FH og Stjörnuna, þá rigndi yfir mann misfalleg skilaboð.“
Þorsteinn segir Víking Ó. ekki vera einsdæmi heldur séu nokkurn veginn allir framkvæmdarstjórar á landinu sem lendi í þessu. Eftir spennuþrungin bikarleik við Breiðablik í gær hafi meðal annars framkvæmdarstjórar beggja liða fengið skilaboð frá óánægðum mönnum sem höfðu veðjað á leikinn.
„Þetta er að færast í aukana,“ segir Þorsteinn að lokum.
Færsla Þorsteins á Twitter
Hressir útlendingar sem eru ósáttir við úrslit Víkings Ó… #fotboltinet pic.twitter.com/QyqL6Uklj6
— Þorsteinn Haukur (@thorsteinnhauku) August 15, 2018