Tónlistarkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir er á leiðinni til Bandaríkjanna í dag en á fimmtudaginn tekur hún þátt í ráðstefnunni Mom 2.0 í Los Angeles. Þórunni Antoníu var boðið að tala á ráðstefnunni um Facebook-hópinn Góðu systur, sem hún stofnaði í desember en rúmlega 50 þúsund konur eru í hópnum.
Á Mom 2.0 koma saman rúmlega 700 bloggarar, athafnakonur og markaðskonur ásamt konum úr skemmtanaiðnaðinum, matreiðslubransanum, pólitík, tækni, viðskiptum, ferðamálum og hönnun, svo eitthvað sé nefnt.
Ráðstefnan hefst á morgun og stendur fram á föstudag. Þórunn Antonía tekur þátt í umræðum um hópa á netinu ásamt tveimur konum sem stofnuði einnig sinn eigin vettvang en Julie Zhuo, yfirmaður hjá Facebook, stýrir umræðunum.
Þórunn Antonía segir í færslu á Facebook að orkan sem konur búa yfir, ef þær vinna í sameiningu, sé ótrúlega mögnuð.
„Þegar ég var yngri og ferðaðist heiminn á hljómsveitabrölti með indie- og popphljómsveitum, þá þráði ég meiri félagsskap frá konum því ég var yfirleitt umkringd strákum í hljómsveitunum,“ segir hún.
Nú er ég í stjórn Kíton (konur í tónlist), stofnaði Góðu systur, sem telur yfir 50.000 konur, og er á leiðinni til Kaliforníu að tala á stórri ráðstefnu hjá Facebook um Góðu systur og fleira.
Facebook er á meðal styrktaraðila ráðstefnunnar ásamt stórfyrirtækjum á borð við Dove, Amazon, Kia og Lego.