Tónlistarkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir segir frá einelti sem hún lenti í við tökur á Ísland Got Talent í Fréttablaðinu í dag.
Þórunn nefndi gerandann ekki á nafn í viðtalinu. Vísir greindi svo frá því að maðurinn sem um ræðir sé Bubbi Morthens.
„Hann var iðulega með ljót komment og óþægilega nærveru, og ég man eftir að hann dundaði sér við að kasta í mig súkkulaðimolum þegar ég steig inn í beina útsendingu í hvítum fötum. […] Ég var lögð í einelti á vinnustað, og ég lét það viðgangast,“ segir Þórunn Antonía í viðtalinu í Fréttablaðinu.
Bubbi birti svo færslu á Facebook þar sem hann sagðist hafa látið þessi orð falla „þar sem fólk var að hlæja og fíflast“ og að hann hafi ekki lagt Þórunni í einelti. „Enn og aftur þá er ég búinn að biðja Þórunni afsökunar á þessu í tvígang og hér með í þriðja sinnm,“ segir hann.
Þórunn birti svo færslu á Facebook í kjölfarið á færslu Bubba og segir hann fela sig á bakvið vægast sagt óviðeigandi húmor og að hann ætti að skammast sín.
„Þegar einhver heldur áfram að stríða eftir að maður hefur sett mörk og ég sagði í einlægni að mér sárnaði þessi hegðun, það er ekkert annað en einelti,“ segir Þórunn Antonía.
„Þú stendur uppi á sviði og syngur um jafnrétti umvafinn konum sem er flott. En kannski hefðir þú átt að sýna mér, konunni sem leit upp til þín og taldi þig vin, smá virðingu og vinsemd. Ég fyrirgef þér en þetta eru allt orð sem þú sagðir en ekki ég og mér sárnaði. Lengi hef ég beðið eftir alvöru afsökunarbeiðni frá þér, kæri gullsmiður orða.“