Þorvaldur Davíð Kristjánsson, leikari og fyrrverandi formaður sambands íslenskra námsmanna erlendis, setur spurningamerki við þá fullyrðingu að það sé gott að vera Íslendingur vegna ákvarðana stjórnvalda. Hann gagnrýnir niðurskurð framfærslu LÍN til námsmanna erlendis og hvetur þá til að rétta síns. Þetta kemur fram í pistli Þorvaldar í Fréttablaðinu.
Þorvaldur Davíð segir að ákvörðun LÍN um að skera niður framfærslu námsmanna erlendis hafi átt sér stað á nokkurra á útreikninga henni til stuðnings. „Fjölmargir námsmenn erlendis voru ósáttir við þennan niðurskurð og kröfðust svara en engin almennileg svör komu frá stjórn LÍN,“ segir hann.
Hann sakar stjórn LÍN um sýndarleik við ákvarðanatöku sína og segir meirihluta námsmanna erlendis telja að hvorki grunnframfærslan né skólagjaldalánin dugi fyrir útgjöldunum.
Nú hef ég fylgst agndofa með stjórnvöldum taka ákvarðanir sem fær mig til þess að spyrja margra spurninga um hvert við stefnum sem þjóð. Viljum við búa í landi þar sem heilbrigðis- og menntakerfi er ekki í lagi? Viljum við í alvöru ekki styðja hvert annað við að búa til betra samfélag?
Þorvaldur segir að flestir sem fara í nám til útlanda skila sér heim.
„Og það þarf engar sérstakar hótanir frá stjórnvöldum líkt og þingmaður Framsóknarflokksins, Vigdís Hauksdóttir, var með á sínum tíma þess efnis að leggja álag á íslenska námsmenn sem ílengdust erlendis til þess að fólk skili sér heim,“ segir hann.
„Miðað við ákvarðanir stjórnvalda og hvernig komið er fyrir almennum mannréttindum á Íslandi er snerta menntunar- og heilbrigðismál þá set ég stórt spurningarmerki við þá fullyrðingu að það sé gott að vera Íslendingur. Legg ég til að námsmenn erlendis taki höndum saman og leiti réttar síns í þessu máli.“