Auglýsing

„Þú getur sent alla þá sem eru með fíknivanda til tunglsins en þú ert þar með ekki búinn að leysa vandann“

„Þú getur bannað allt áfengi og dóp í heiminum. Þú getur sent alla þá sem eru með fíknivanda til tunglsins en þú ert þar með ekki búinn að leysa vandann. Þau eru ennþá andlega og huglega veik,“ segir Pétur Einarsson kvikmyndaframleiðandi og fyrrverandi forstjóri Straums fjárfestingarbanka.

Pétur er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni. Hann hefur tekist á við ótal mismunandi verkefni á lífsleiðinni en Pétur hefur síðastliðin ár helgað líf sitt því að hjálpa fólki í vímuefnavanda. Pétur hefur síðustu misserin verið við nám hjá Hazelden Betty Ford stofnuninni í Bandaríkjunum en hann segir lausnina fólgna í algjörri uppgjöf.

„Lausnin er í þessari uppgjöf sem við vorum aðeins að tala um áðan. Það er það að viðurkenna þetta. Það er svo erfitt, það er svo mikil skömm og afneitun en þegar ég get viðurkennt það og sætt mig við það að þá byrjar hugurinn að opnast. Opnast fyrir einhverju góðu, fyrir einhverju andlegu, fyrir að geta ekki séð vandamálin hjá öllum öðrum eða verið neikvæður. Heldur að geta verið til staðar fyrir aðra, hjálpað öðrum,“ segir Pétur og undir það tekur Frosti – sem sjálfur hefur þurft að glíma við fíknivanda.

Endurheimta sjálfan sig

„Hugurinn fer að opnast fyrir því að maður getur breyst sjálfur. Það er algengt vandamál hjá okkur alkahólistum að við erum svolítið mikið að kenna öllum öðrum um. Ástæðan fyrir því að allt er komið í hnút er aldrei mér sjálfum að kenna heldur eru það einhverjar aðstæður eða einhverjir aðrir sem að leiddu til þess að vandamálið varð svona. Þetta er einn af þessum grunnþáttum sem þarf að læra að sjá frá öðru sjónarhorni og átta sig á að maður eigi kannski hlut í vandamálinu.“

„Algjörlega. Það er auðvelt að benda fingrinum á aðra,“ segir Pétur og bendir þá Frosti á að það verður mikil breyting á viðkomandi manneskju þegar hún nær þessari hugarfarsbreytingu.

„Gagngerð breyting. Hugarfarsbreyting. Þetta er ekki sama manneskjan eða að þetta er raunverulega manneskjan sem er að endurheimta sjálfan sig. Við segjum á ensku fyrir bata recovery sem er frá orðinu recover eða endurheimta. Sjúkdómurinn var búinn að taka það frá mér og var búinn að breyta mér og þessvegna finnst mér líka mikilvægt að vera ekki endilega að skilgreina sig sem fíkil eða alkahólista heldur sem manneskju með þennan vanda,“ segir Pétur í þessu opinskáa viðtali Frosta við við mjög lífsreyndan og áhugaverðan mann.

Hægt er að horfa og hlusta á viðtalið á Brotkast.is.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing