Berglind Dögg Bragadóttir og Håvard Astrup Bustad giftu sig í gær en þýðingarvél Google gerði það að verkum að brúðkaupsmyndatakan varð með skemmtilegra móti.
Ljósmyndarinn Gunnar Freyr Steinsson sagði frá þessari stórskemmtilegu myndatöku á Facebook síðu sinni í dag. Berglind Dögg Bragadóttir pantaði brúðkaupsmyndatökuna hjá Gunnari í janúar en í tölvupósti sagði hún að tilvonandi eiginmaður sinn væri þorskur.
Gunnar segist hafa grátið úr hlátri þegar að hann fékk skilaboðin og þegið boðið undir eins. Skilaboðin sem hann fékk voru eftirfarandi:
„Sæll. Við giftum okkur 30. Júní 2018 við Hveragerði og viljum gjarna heyra hvort þú getir tekið það að þér. Ég er íslensk og maðurinn er þorskur og við búum í Noregi. Athöfnin með siðmennt verður um 14 leytið og við viljum gjarna taka myndir eftir athöfnina líka.“
Berglind og Håvard höfðu einnig gaman af þessu og raunar fannst þeim þetta svo fyndið að þau keyptu grímu sem hentaði tilefninu fullkomlega.
„Ég grét úr hlátri þegar ég sá póstinn frá þeim í janúar og þeim fannst þetta sjálfum alveg drepfyndið og tóku þetta bara alla leið,“ segir Gunnar.