UFC-bardagamaðurinn Donald Cerrone birti mynd á Instagram-síðu sinni í gærkvöldi sem virðist gefa til kynna að hann mæti Conor McGregor á UFC 239 þann 6. júlí næstkomandi.
Myndin sýnir flösku af Budweiser bjór og flösku af Proper Twelve viskí og við hana stendur að áfengistegundirnar tvær mætist 6. júlí og svo koma stafirnir US og IE, sem tákna Bandaríkin og Írland.
Eins og margir vita er Conor McGregor stofnandi Proper Twelve merkisins og Cerrone er sjálfur einlægur aðdáandi og talsmaður Budweiser, sem er líka einn af styrktaraðilum hans. Það virðist því nokkuð ljóst að Cerrone sé að vísa í að samið hafi verið um bardaga milli hans og McGregor.
Cerrone byrjaði að óska eftir bardaga við McGregor eftir glæsilegan sigur sinn á Alexander Hernandez í síðasta mánuði og McGregor tók vel í hugmyndina. Joe Rogan, lýsandi UFC, gaf líka til kynna að bardaginn sé á dagskrá, en nú virðist það loks staðfest.
Cerrone er einn vinsælasti og reyndasti bardagamaður UFC og hann hefur sextán sinnum unnið bónus fyrir frammistöðu sína hjá UFC, sem er met. Hann er líka áhugaverð persóna sem eyðir frítímanum á milli bardaga í alls kyns lífshættulega afþreyingu. Cerrone er aðallega þekktur fyrir frábæra hæfni í sparkboxi, en hann er líka með svart belti í brasilísku Jiu-Jitsu og stórhættulegur í gólfinu.
Þar sem hann leggur hins vegar litla áherslu á fellur og að sigra menn í gólfinu eru ágætar líkur á að viðureign hans og McGregor færi að mestu eða öllu leyti fram standandi og þá má líka gera ráð fyrir miklum tilþrifum. Trúlega er UFC-bardagasambandið einmitt að vonast eftir þeirri niðurstöðu eftir að Rússinn Khabib Nurmagomedov niðurlægði McGregor með glímuhæfni sinni í síðasta bardaga McGregor.
Eitt aðalvopn McGregor, kjafturinn, er líklega ekki að fara að hjálpa honum mikið gegn Cerrone, því hann er sjálfur með munninn fyrir neðan nefið, virðist ekkert hræðast og er alltaf rólegur. McGregor þarf líka að hafa bætt sig verulega í gólfglímunni til að eiga möguleika gegn Cerrone þar, svo hann reynir að öllum líkindum að treysta á hnefaleikahæfni sína og höggþungann.