Auglýsing

Tilkynnt um innbrotsþjóf með eggvopn í Reykjavík: Handtekinn með leikfangasverð

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um einstakling sem var að reyna að brjótast inn í húsnæði í miðborg Reykjavíkur en tilkynningunni fylgdi að hann væri með eggvopn meðferðis. Laganna verðir voru fljótir að stökkva til og komust þeir á vettvang áður en einstaklingurinn náði að brjótast inn. Við öryggisleit á umræddum einstakling fannst hinsvegar ekkert eggvopn heldur leikfangasverð úr plasti sem geymt var í bakpoka hans.

Þetta var á meðal þeirra verkefna sem lentu á borði embættisins frá því klukkan 17:00 í gær og til 05:00 í morgun en þegar þetta er ritað gista þrír einstaklingar fangaklefa. Þá voru alls 67 mál bókuð í LÖKE-kerfi lögreglunnar á þessu tímabili.

Réðust á starfsmann verslunar

Tveir þjófar réðust á starfsmann verslunar á höfuðborgarsvæðinu en sá hafði reynt að hafa afskipti af þeim. Samkvæmt dagbók lögreglunnar var starfsmaðurinn með minniháttar áverka.

Þá var önnur líkamsárás tilkynnt til lögreglunnar en hún átti sér stað í heimahúsi. Samkvæmt embættinu var gerandinn handtekinn á vettvangi og vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Að lokum, þó svo þessi listi sé alls ekki tæmandi, var einn viðskiptavinur verslunar á höfuðborgarsvæðinu tilkynntur til lögreglunnar en hann var sagður mjög æstur. Hafði hann skemmt einhverjar vörur í versluninni en slapp þó við fangaklefa þar sem hann fékk að halda sína leið eftir skýrslutöku laganna varða.

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing