Tæplega fertugur karlmaður lést á miðvikudagskvöld af áverkum sem hann hlaut við hrottalega líkamsárás fyrir utan heimili sitt á Æsustöðum í Mosfellsdal. Málið hefur verið sagt tengjast handrukkun. Fimm karlmenn og ein kona voru handtekin sama kvöld og hafa þau öll verið úrskurðuð í gæsluvarðhald og einangrun.
Vísir fjallaði ítarlega um árásina í gærkvöldi. Nútíminn hefur tekið saman það sem vitað er um árásina og tímalínu hennar.
Tímalína málsins
Fyrir þremur vikum
Að minnsta kosti einn þeirra sem sætir gæsluvarðhaldi vegna málsins réðst á hinn látna vegna meintrar fíkniefnaskuldar.
Laugardagur 27. maí
Hinn látni og unnusta hans eignast dóttur.
Miðvikudagur 7. júní
Hópur fólks bankar upp á hjá manninum á heimili hans á Æsustöðum í Mosfellsdal rétt eftir kl. 18. Unnusta hans kemur til dyra en á heimilinu var einnig maðurinn, dóttir parsins og afi unnustunnar, sem hafði komið í kvöldmat. Fólkið vill ræða við manninn og þegar hann kemur til dyra hefst árásin.
Lögreglan er kölluð út að Æsustöðum kl. 18.24 vegna hrottalegrar líkamsárásar.
Þegar lögregla kemur á staðinn standa tveir menn yfir hinum látna en þeir eru báðir í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Annar þeirra er sagður hafa ráðist á manninn þremur vikum fyrr. Annar maðurinn talar í símann en hinn hefur hafið endurlífgun. Á þessum tímapunkti höfðu hin fjögur, ein kona og þrír karlmenn, farið af vettvangi glæpsins.
Lögregla handtekur mennina tvo sem urðu eftir við Æsustaði, konuna á öðrum stað í Mosfellsdal og þrjá karlmenn á Vesturlandsvegi við Korputorg.
Yfirheyrslur hefjast og standa yfir alla nóttina og fram á næsta dag.
Fimmtudagur 8. júní
Farið er fram á gæsluvarðhald og einangrun yfir öllu fólkinu. Héraðsdómur Reykjavíkur verður við því og sæta mennirnir fimm gæsluvarðhaldi til 23. júní en konan til 16. júní.
Það sem við vitum um árásina
Vitni að árásinni segja að maðurinn hafi fallið í jörðina strax í upphafi árásarinnar en síðan komist á fætur. Þá náði hann sér í kústskaft úr járni sem hann notaði til að verjast fólkinu. Mun hann meðal annars hafa notað það til að berja í bíla fólksins. Við þetta flúði hluti hópsins af vettvangi.
Hluti hópsins hélt árásinni þó áfram. Einn þeirra náði kústskaftinu af manninum og barði hann. Maðurinn hljóp í burtu en rann og datt á grúfu. Að sögn vitna stökk þá einn árásarmannanna á bak mannsins, tók hann hálstaki og barði hann í andlitið með hinni.
Einn árásarmannanna hringir á Neyðarlínuna eftir að þeir átta sig á því að maðurinn hafði misst meðvitund og biður um sjúkrabíl. Árásarmaðurinn leggur símann því næst frá sér og öskrar ókvæðisorð að manninum um meinta fíkniefnaskuld. Í símtalinu eru sögð heyrast hljóð sem gefa til kynna að á þessum tímapunkti hafi maðurinn verið á lífi.
Unnusta mannsins, foreldrar hans og afi unnustunnar voru öll vitni að árásinni. Móðir mannsins öskraði á mennina að sleppa honum en gerðu það ekki fyrr en þeir áttuðu sig á því að hann var ekki lengur með meðvitund.
Bráðabirgðaniðurstöður krufningar gefa ekki fullnægjandi svör við því hver dánarorsök voru. Hann var með mikla áverka víðsvegar um líkamann sem taldir eru hafa haft samverkandi áhrif sem leiddu til dauða hans.
Meðal áverka eru rifbeinsbrot, tungubeinsbrot og áverkar á hálsi sem benda til þess að maðurinn hafi verið tekinn hálstaki.