Strákarnir okkar hafa farið á kostum innan vallar á EM í fótbolta í Frakklandi en Guðmundur Benediktsson hefur farið á kostum utan vallar. Ástríða hans hefur vakið heimsathyglo og hann hefur nú verið tvisvar tekinn fyrir í spjallþætti Stephen Colbert á bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS.
Á Facebook gengur nú manna á milli samantekt af helstu gullmolum Gumma úr leiknum á móti Englandi en þar fór hann algjörlega á kostum. Sá eða sú sem á heiðurinn á samantektinni hefur ekki fundist en viðkomandi má hafa samband svo við getum komið nafninu að.
Uppfært: Nú hefur komið í ljós að þessi samantekt var hreint ekki flökkufærsla á Facebook, heldur samantekt mbl.is. Nútíminn stal því í hita leiksins efni frá vinsælasta vefsvæði landsins. Það var samt óvart og við biðjum blaðamann mbl.is afsökunar. Loks hvetjum við alla til að lesa frekar samantektina þar sem hún á heima.
1. Þegar hann fagnaði marki Ragga með viðeigandi kalli á tungu keppinautanna
„KING RAGGI! KING RAGGI!“
2. Þegar hann gerðist ljóðrænn
„Ragnar rís eins klettur úr hafinu.“
3. Þegar hann sagði hann áhorfendum sannleikann
„Fyrir ykkur sem voruð að koma að skjánum…. þið eruð búin að missa helling úr lífinu.“
4. Þegar Birkir Bjarna kom sér úr erfiðri stöðu fann hann þjóðlega líkingu
„Hann býr bara til hagnað… eins og bankamennirnir í gamla daga!“
5. Þegar hann leitaði í trúna
„Ef guð er Íslendingur þá verður ekki skorað meira í þessum leik…. og ég held röddinni.“
6. Þegar hann óskaði sér
„Ef ég ætti eina ósk þá yrði það að uppbótartími yrði bannaður. Bannaður!“
7. Þegar hann benti á gott uppeldi Emma
„Mamma hans er flugfreyja og það er farið eftir reglum þar á bæ!“
8. Þegar hann laug
„Ég er gjörsamlega, gjörsamlega hlutlaus.“
9. Þegar hann fagnaði í lok leiks (hástafir nauðsynlegir)
„ÞETTA ER BÚIÐ, ÞETTA ER BÚIÐ! VIÐ ERUM KOMNIR TIL PARÍSAR! VIÐ ERUM ALDREI AÐ FARA HEIM!“
10. Og þegar hann fór eiginlega yfir strikið í hita leiksins
„Þið getið farið heim, þið getið farið úr Evrópu, þið getið farið bara hvert sem þið viljið.“