Tökur á raunveruleikaþættinum Keeping Up With The Kardashians eru hafnar á ný, þremur vikum eftir að Kim Kardashian var rænd á hóteli í París í Frakklandi.
Stjarnan lagði leið sína á tónleika eiginmanns síns Kanye West á þriðjudagskvöld og var hún með myndavélar í eftirdragi. Hún hefur ekkert látið í sér heyra í samfélagsmiðlum eftir ránið.
Þrír menn, klæddir í lögreglubúninga, rændu Kardashian. Þeir hótuðu henni með byssu, sem og starfsmanni hótelsins þar sem hún dvaldi. Starfsmaðurinn sagði nýlega í viðtali að ræningjarnir hefðu ekki verið á eftir skartgripum stjörnunnar, heldur peningum.
Vangaveltur hafa verið um að ræningjarnir hafi verið á eftir 20 karata demantshring sem Kardashian hafði sýnt á samfélagsmiðlum. Starfsmaðurinn sagði aftur á móti að mennirnir hafi stöðugt spurt um peninga en tekið við hringnum þegar stjarnan rétti þeim hann. Hann telur að þeir hafi ekki endilega áttað sig á verðmæti hringsins. Hann sagði einnig að ræningjarnir hefðu ekki skilið ensku.
Lögregla í París rannsakar enn málið. Enginn hefur verið handtekinn.