Tólf kennarar í Norðlingaskóla í Reykjavík sögðu upp störfum í dag.
Kjaradeila grunnskólakennara við sveitarfélögin er á borði ríkissáttasemjara. Boðað hefur verið til næsta fundar í deilunni á morgun.
„Staðan er mjög alvarleg og ég met það svo að menn hafi ofboðslega lítinn tíma til að bregðast við þessu ef við eigum að hafa möguleika á að fólk verði ekki komið annað því ég veit að menn byrja strax í dag að leita sér að vinnu,“ segir Ragnar Þór Pétursson, trúnaðarmaður kennara í Norðlingaskóla og einn þeirra sem sagði upp í dag, í samtali við Vísi.
Tíu grunnskólakennarar í Holtaskóla í Reykjanesbæ hafa sagt starfi sínu lausu í vikunni, tuttugu og tveir grunnskólakennarar í Seljaskóla í Reykjavík hafa sagt upp síðastliðinn mánuðinn og að minnsta kosti sex grunnskólakennarar í Dalsskóla í Reykjavík.
Nemendur í Seljaskóla ætluðu að skrópa í tíma eftir kl. 10 á föstudaginn til að sýna kennurum sínum stuðning í kjaradeilu þeirra. Hætt hefur verið við aðgerðirnar.
„Ákveðið hefur verið að hætta við þessar framkvæmdir vegna þess að það er rangt að skrópa í skóla og við ætlum að gera þetta á betri og fagmannlegri hátt,“ skrifaði annar nemandanna sem stóðu fyrir aðgerðunum.
Aðgerðir grunnskólakennara í gær, sem fólust í því að leggja niður störf kl. 13.30 og ganga út úr skólunum, voru ólöglegar. Þetta sagði Lára V. Júlíusdóttir, sérfræðingur í vinnurétti, í tíufréttum RÚV í gærkvöldi.
Sagði hún að fara þyrfti eftir lögum og reglum um vinnustöðvun í kjaradeilum og hægt væri að sekta fyrir brot sem þetta. Það sé þó sjaldan gert.