Ellefu ára stúlku var neitað um að taka þátt í pítsuveislu í Fellaskóla á öskudaginn þar sem hún er ekki í mataráskrift hjá Reykjavíkurborg. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Fréttablaðið greinir frá því að stúlkan mæti ávallt með nesti í skólann. Móðir hennar vildi hins vegar gera á því undantekningu þar sem pitsur voru í boði í tilefni af hátíðahöldunum á öskudag.
Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir, skólastjóri Fellaskóla, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að þrátt fyrir að stúlkan hafi komið með fimm hundruð krónur með sér til að kaupa eina pitsusneið, þá hafi það ekki verið í boði.
Í samtali við Fréttablaðið segir hún að aðeins nemendur sem eru í mataráskrift borði mat frá mötuneytinu. Fréttablaðið greinir frá því að mataráskrift kosti það sama í öllum skólum borgarinnar og fyrirkomulagið.
Máltíðin kostar 355 krónur en ekki er sveigjanleiki í kerfinu til að borga stakar máltíðir og innheimt er jafnaðargjald miðað við 20 daga í mánuði, eða 7.100 krónur.