Tónlistarveitan Tidal, sem er í eigu Jay Z og fleiri tónlistarmanna, hefur nú opnað á þjónustu sína á Íslandi. Veitan býður upp á 25 milljón lög og 75 þúsund tónlistarmyndbönd í háskerpu. Þetta kemur fram á Símon.is.
Tidal býður upp á FLAC tónlist, eða tónlist í mun meiri gæðum en á öðrum veitum eins og t.d. Spotify. Tvær áskriftarleiðir eru í boði. Almenn áskrift sem kostar 9.99 evrur á mánuði og áskrift með tónlist í FLAC-gæðum á 19.99 evrur á mánuði.
Sjá einnig: Hvað er Tidal og hvernig kemur það Jay-Z við?
Tidal-appið er komið fyrir iOS og Android en ólíkt Spotify þá er ekki boðið upp á hugbúnað fyrir tölvur heldur vefspilara á slóðinni listen.tidal.com.
Tidal lofar listamönnunum hærri höfundarréttargreiðslum en sambærilegar þjónustur á borð við Spotify.
Fjölmargir frægir tónlistarmenn hafa verið kynntir sem eigendahópur Tidal: Beyoncé, Rihanna, Kanye West, Jack White, Arcade Fire, Usher, Nicki Minaj, Chris Martin, Alicia Keys, Calvin Harris, Daft Punk, deadmau5, Jason Aldean, J. Cole og Madonna ásamt Drake og meðlimum Coldplay.