Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hótaði Írönum öllu illu á Twitter síðu sinni í nótt í kjölfar ræðu Hassan Rouhani, forseta Írans.
Trump varaði stjórnvöld í Tehran við því að hann myndi ekki sitja aðgerðarlaus hjá á meðan að þau hótuðu Bandaríkjunum stríði. Afleiðingarnar fyrir Írani yrðu mjög alvarlegar.
Rouhani gagnrýndi Bandaríkin í ræðu sinni fyrr um kvöldið og varaði stjórnvöld í Bandaríkjunum við því að grafa undan sambandi ríkjanna. Hann sagði að bandarísk stjórnvöld ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þau myndu ráðast inn í Íran því stríð við Íran yrði stríð allra stríða.
Ummælin fóru ekki vel í Trump sem var mættur á Twitter skömmu síðar og sendi Rouhani skilaboð, öll í hástöfum. Hann sagði að ef Rouhani myndi hóta Bandaríkjunum aftur myndi hann upplifa afleiðingar sem hafa sér fáar hliðstæður í mannkynssögunni.
„Við erum ekki lengur þjóð sem stendur undir sjúkri orðræðu ykkar um ofbeldi og dauða. Farið varlega!” skrifaði Trump.
Trump ákvað að í maí að Bandaríkin segðu sig frá samkomulagi um kjarnaáætlun Íran og hefur samband ríkjanna ekki verið gott síðan þá.
To Iranian President Rouhani: NEVER, EVER THREATEN THE UNITED STATES AGAIN OR YOU WILL SUFFER CONSEQUENCES THE LIKES OF WHICH FEW THROUGHOUT HISTORY HAVE EVER SUFFERED BEFORE. WE ARE NO LONGER A COUNTRY THAT WILL STAND FOR YOUR DEMENTED WORDS OF VIOLENCE & DEATH. BE CAUTIOUS!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 23, 2018