Auglýsing

Trump segir að tunglið sé hluti af Mars

Tunglið er fyrirbæri sem flestir ættu að kannast við. Samkvæmt Stjörnufræðivefnum er tunglið, eða máninn eins og hann er stundum kallaður, eini náttúrulegi fylgihnöttur jarðarinnar. Tunglið er bjartasti hnötturinn á næturhimninum og er gjarnan talið stjórna flóði og fjöru á jörðinni. Frægar eru ferðir manngerðra geimfara á tunglið en maðurinn steig fyrstu skref á hnettinum fyrir fimmtíu árum síðan, þann 20. júlí 1969.

Það er því hálf ómögulegt að skilja hvernig Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, getur haldið því fram að tunglið sé hluti af Mars. Rauða plánetan Mars er í 33,9 milljón mílna fjarlægð frá jörðinni og þó uppi séu háfleygar hugmyndir um mannaferðir til Mars á næstu áratugum, hefur lítið farið fyrir þeim plönum.

Forsetinn tísti furðulegri yfirlýsingu á Twitter-reikningi sínum í gær, föstudaginn 7. júní. Í tístinu hraunar Trump yfir geimferðarstöð Bandaríkjanna, NASA, eins og honum einum er lagið. Segir forsetinn NASA vera að sólunda peningum í fleiri tunglferðir og að stofnunin ætti að einbeita sér að stærri verkefnum, eins og að ná lendingu á Mars. Þá bætir forsetinn við að tunglið sé hluti af Mars.

Tístið vakti skiljanlega margar spurningar, sérstaklega í ljósi þess að forsetinn hefur áður tíst NASA til stuðnings. Í desember 2017 skrifaði Trump undir yfirlýsinguna Space Policy Directive 1 en í yfirlýsingunni kemur fram að NASA muni nota þekkingu sína á tunglferðum til þess að þróa frekari geimferðir, m.a. til Mars. Í apríl fór Hvíta húsið svo fram á viðbótar 1,6 billjónir dollara við fjárhagsáætlun sína til þess að flýta fyrirhuguðum tunglferðunum og koma fyrstu geimförunum, þar á meðal fyrstu konunni, á grýttar merkur tunglsins fyrir árið 2024.

Um þetta tísti Trump þann 13. maí sl. og er því nýjasta tíst hans enn óskjilanlegra, fyrir utan takmarkaða þekkingu forsetans á sólkerfi okkar.

 Forsetinn er þekktur fyrir furðuleg tíst sín og staðhæfingar sem eiga sér engar stoðir í raunveruleikanum en það verður að segjast að þessi nýjasta er ein af hans áhugaverðustu.
Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing