Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnisstjóri um framkvæmd höfuðstólslækkunar íbúðalána, staðfesti í Morgunútgáfunni á RÚV í morgun að skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar séu fjármagnaðar úr ríkissjóði
Þrátt fyrir að stjórnmálamenn hafi beintengt þetta því að skatturinn sé lagður á út af þessu, þá er það í raun og veru ekki hægt, vegna þess að aðgerðin hún er bara fjármögnuð úr ríkissjóði, og einn af þeim sköttum sem voru hækkaðir til þess að standa undir heildarútgjöldum ríkissjóðs, voru bankaskattarnir. Þannig að það er ekki alveg hægt að beintengja það, þrátt fyrir að stjórnmálamenn geri það í umræðunni.
Þegar Bjarni Benediktsson kynnti aðgerðirnar í nóvember á síðasta ári sagði hann eftirfarandi:
Við teljum rétt í ljósi þess gríðarlega kostnaðar sem hefur fallið á ríkið að hækka þennan skatt (innskot blm: bankaskatt) enn frekar og með því móti munu áhrif aðgerðanna sem við kynnum í dag vera engin á afkomu ríkissjóðs. Aðgerðin verður full fjármögnuð.
Tryggvi Þór sagði hins vegar í morgun að hugsanlegt sé að hluti aðgerðanna verði tekinn til baka, fari svo að ekki fáist fjármögnun fyrir þeim. Aðgerðin sé háð fjármögnun.
69 þúsund manns hafa sótt um leiðréttingu en frestur rann út 1. september.