Mikil reiði er meðal íbúa í Öxarfirði og Kelduhverfi vegna ákvörðunar um að ekki sé forsvaranlegt að ráðast í frekari framkvæmdir á sundlauginni í Lundi eins og staðan er í dag.
Vikublaðið segir frá þeirri ákvörðun á vef sínum og einnig frá því að Brynjar Þór Vigfússon sem situr í hverfisráði Öxarfjarðar haldi því fram að honum finnist heldur betur halla á íbúa byggða sem liggja austan Húsavíkur þegar kemur að úthlutuðu framkvæmdafé.
„Ég held að það hafi verið búið að ákveða það síðasta haust að ekkert yrði af viðhaldi á sundlauginni í Lundi en í raun ekkert gefið út fyrr en bara mjög seint núna á vordögum. Við vorum alltaf að reyna að fá ákveðin svör en þau bárust ekki fyrr en þessi ákvörðun var kynnt,“ er haft eftir Brynjari.
Hann segir að það þurfi að ráðast í viðhald á sundlauginni en ljóst sé að það standi ekki til úr þessu.
Sveitarstjóri Norðurþings, Katrín Sigurjónsdóttir, svaraði því skriflega að sundlaugin hafi verið opin í fyrrasumar sem og fyrir skólasund síðastliðinn vetur en að nú hafi verið gerðar athugasemdir við ástand bæði laugar og búnaðar.
Þessar athugasemdir hafi valdið því að ákveðið var að hafa laugina ekki opna í sumar en ekki sé heldur hægt að skrifa allt á vanrækslu í viðhaldi því mannvirkið sé einfaldlega að „klára sína lífdaga“ eins og margar íslenskar sundlaugar sem gerðar voru á svipuðum tíma.
Katrín segir að erfitt sé að fá varahluti í hreinsikerfið og að það ásamt lagnakerfi og laugarkari sé allt komið í þannig ástand að huga þurfi að heildstæðri endurnýjun.
Katrín segir einnig að kostnaðaráætlun þurfi að liggja fyrir þegar ákvörðun er tekin um framtíðaruppbyggingu og viðhald íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu og að unnið sé að uppfærslu kostnaðaráætlunar fyrir nýtt mannvirki.
Brynjar segist hins vegar ekki bjartsýnn á að af því verði enda hafi íbúar lengi kallað eftir því að fá fjármagn til að ráðast í viðhald á sundlauginni en ekki haft erindi sem erfiði og það valdi því að kostnaðurinn hækkar stöðugt og alltaf sé svarið á þá leið að um haust sé sagt að „eitthvað verði gert fyrir næsta sumar“ en svo verði aldrei neitt úr slíku þegar að því kemur.
Brynjar segir einnig að það geri sér allir grein fyrir því að dýrt sé að reka sundlaugar á litlum stöðum enda líti flestir á slíkt sem þjónustu við íbúa en ekki gróðastarfsemi og bendir á að sambærileg verkefni á Húsavík fái miklu fremur fjárveitingar.
Ekki er langt síðan sagt var frá því að loka ætti sundlauginni á Raufarhöfn sem einnig er í Norðurþingi. Þar átti einnig að takmarka aðgang að íþróttahúsi en hætt var við það eftir hörð mótmæli íbúa.
Ekki tókst að finna nákvæma upphæð sem á þurfti að halda til að halda íþróttamiðstöðinni opinni en samkvæmt heimildum Nútímans var hún á bilinu ein til tvær milljónir.
Í frétt RÚV sem birtist 10 dögum eftir að greint var frá mótmælum íbúa Raufarhafnar er svo sagt frá því að kostnaður við rennibraut sem byggð var við sundlaugina á Húsavík hafi verið kominn upp í 65 milljónir þegar fréttin birtist og því hægt að áætla að kostnaður hafi orðið enn meiri en það.
Íbúi sem Nútíminn ræddi við sagði að þetta sýndi svart á hvítu hversu mikil misskipting væri milli byggða í Norðurþingi og að alltaf virðist vera til fjármagn til að „auka lúxusinn við Húsvíkinga en aldrei séu til peningar til að viðhalda grunnþjónustu annarsstaðar.“
Í fundargerð sveitarstjórnar Norðurþings frá mars 2020 er einnig tilkynnt að Hjálmar Bogi hafi lagt til að sundlaugin í Lundi ásamt öðrum byggingum yrðu ástandsskoðaðar og var það samþykkt en ekkert fannst um hvað kom út úr þeirri skoðun.
Önnur fundargerð sama ár greinir svo frá að fjölskylduráð hafi vísað skoðunarskýrslum Heilbrigðiseftirlits Norðurlands á sundlaugunum á Raufarhöfn og í Lundi og hafa átti hana í huga vegna framkvæmdaáætlunar 2021 en sömuleiðis gat blaðamaður ekkert fundið um hvað kom út úr þeirri áætlun.