Sólveigu Johnsen brá heldur í brún þegar hún fór og keypti túrtappa í matvöruverslun í Búlgaríu í síðustu viku. Pakkinn kostaði sem samsvarar 521 íslenskri krónu, sem er kannski ekki óvenju mikið á íslenskan mælikvarða en þarna verður að taka með í reikninginn að kaupmáttur launa er mun minni í Búlgaríu en á Íslandi.
Í Búlgaríu er hægt að kaupa sex og hálfan bjór fyrir sömu upphæð og Sólveig greiddi fyrir túrtappana. Þetta á líka við um átta brauðhleifa eða hálft kíló af nautakjöti.
„Þó við höfum það alveg mökkfínt heima á Íslandi og höfum kannski alveg efni á að borga 1.000 krónur á mánuði fyrir að fara á túr, þá var ég að fá ansi hart slapp í andlitið um hvernig staðan er fyrir konur sem voru kannski alveg jafn heppnar með fæðingarstað,“ skrifaði Sólveig í færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún fjallaði um málið.
Við höfðum samband við Sólveigu og ræddum málið við hana.
„Það sló mig gríðarlega hversu hlutfallslega dýrari túrtapparnir voru, við hliðina á öðrum nauðsynjavörum sem kosta hér brot af því sem við eigum að venjast heima á Íslandi. Kaupmáttur fólks er svo miklu minni hér og því er það alveg út í hött að konur hér séu að borga svipað verð fyrir tíðavörur og konur eru að borga heima á Íslandi þar sem við fáum margfalt hærri laun. Nógu mikið borgum við fyrir að fara á túr heima,“ segir Sólveig í samtali við Nútímann.
Hún segir að með færslunni hafi hún viljað vekja athygli á því að fyrir konur í fátækari löndum geti þessi fjárhæð, um 500 íslenskar krónur fyrir einn kassa og um 1.000 krónur fyrir tvo kassa, skipt gríðarlega miklu máli.
„Sem vestræn forréttindakona hef ég mun meiri möguleika á að láta í mér heyrast heldur en konur í fátækari löndum heima. Þess vegna reyni ég að leggja mitt af mörkum. Hlutirnir breytast ekki ef við horfum bara í hina áttina,“ segir Sólveig.
Segir samfélagið krefjast þess að konur noti túrtappa eða bindi
Sólveig segir að margt megi betur fara á Íslandi. „Í fyrsta lagi á skattur á tíðavörur augljóslega að vera 11% eins og á bleiur, en ekki 24%. Þetta er ekki einhver lúxusvara, konur hugsa ekki „Nú ætla ég að leyfa mér aðeins“ og kaupa síðan túrtappa,“ segir hún.
Sólveig segir að samfélagið krefjast þess af konum að þær noti vörur eins og dömubindi og túrtappa og segir að það sé í raun og veru ekki valkvætt. Bendir hún á gjörninga aktívista sem hafi sýnt fram á tíðablóð á almannafæri þyki hneykslanlegt, ekki boðlegt í samfélaginu.
„Ímyndum okkur að mæta í vinnuna á blæðingum og vera ekki með bindi, tappa eða annað til að taka á móti blóðinu. Af hverju eru þessar hreinlætisvörur ekki skattlagðar á sama hátt og klósettpappír,“ spyr Sólveig og bætir við að pappírinn sé vissulega ekki lífsnauðsynlegur en þyki þó nauðsynlegur fyrir það sem talið er vera almennt hreinlæti.
Sólveig segir að það væri afar jákvætt og eðlilegt að bjóða upp á ókeypis túrtappa eða dömubindi á almenningsalernum líkt og boðið er upp á ókeypis klósettpappír.
„Svo er það auðvitað álfabikarinn, sem er lofaður mjög af mörgum konum og er jafnframt umhverfisvænni en bindin og tapparnir. Hvernig væri að bjóða öllum íslenskum konum upp á álfabikarinn ókeypis eða niðurgreiddan,“ spyr hún einnig.
„Það myndi án efa draga stórlega út notkun á hinum vörunum og leiða gott af sér fyrir umhverfið. Við getum farið margar mismunandi leiðir í þessum málum, það mikilvæga er að einhver skref séu tekin. Við megum heldur ekki gleyma að við getum verið fordæmi fyrir aðrar þjóðir,“ segir Sólveig að lokum.