Tuttugu og fimm ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Nítján voru stöðvaðir í Reykjavík, þrír í Kópavogi, tveir í Hafnarfirði og einn í Garðabæ. Tveir voru teknir á föstudagskvöld, þrettán á laugardag, átta á sunnudag og tveir aðfaranótt mánudags. Þetta voru átján karlar á aldrinum 17-55 ára, sá yngsti með nokkurra daga gömul ökuréttindi, og sjö konur, 18-46 ára.
Fjórir þessara ökumanna höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi og tveir hafa aldrei öðlast ökuréttindi. Einn ökumannanna var með barn í bílnum. Til viðbótar stöðvaði lögreglan för þriggja réttindalausra ökumanna og var þeim öllum gert að hætta akstri, sem og einum ökumanni sem hafði neytt áfengis en var undir refsimörkum.
Lögreglan var mjög víða við eftirlit í umdæminu með ölvunar-, fíkniefna- og lyfjaakstri og svo verður vitaskuld áfram enda full ástæða til að því er virðist.