Það var nóg að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu liðna nótt. Um 100 bókanir voru skráðar frá því klukkan fimm í gær til fimm í nótt. Tveir einstaklingar voru handteknir vegna heimilisofbeldis.
Tilvik um heimilisofbeldi voru tilkynnt í Hafnarfirði og Grafarholti í nótt. Gerendur voru handteknir og vistaðir í fangageymslu. Málin eru nú til rannsóknar hjá lögreglu.
Mikið var um ölvun á höfuðborgarsvæðinu í nótt og víða var tilkynnt um ofurölvi eða ósjálfbjarga fólk. Einnig barst töluvert af tilkynningum um hávaða og ölvun í heimahúsum.
Lögregla stöðvaði nokkra ökumenn undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Einn einstaklingur var handtekinn fyrir brot á vopnalögum og vörslu fíkniefna.