Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af ungmennum í gærkvöldi sem reyndu að brjóta sér leið inn í yfirgefið húsnæði.
Samkvæmt upplýsingum frá embættinu voru þau treg til að gefa upp nafn og kennitölu og voru þau því flutt á lögreglustöð. Var í kjölfarið haft samband við foreldra þeirra og barnavernd. Við leit á þeim fannst hnífur og verður viðkomandi kærður fyrir vopnalagabrot.
En það var ekki eini hnífurinn sem lögreglan tók af ungmennum í gær því rétt fyrir klukkan 23:00 í gærkvöldi var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna ráns. Tveir drengir undir átján ára aldri voru sagðir hafa beitt þann þriðja ofbeldi og hótað með hnífi.
Þannig komust þeir yfir muni viðkomandi en drengirnir voru handteknir eftir miðnætti og að höfðu samráði við barnavernd voru þeir vistaðir í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.