Tvítugur ökumaður, fæddur árið 2003, hefur réttarstöðu sakbornings vegna banaslyssins á Sæbraut þarsíðustu helgi þar sem ekið var á gangangi vegfaranda. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu fá allir ökumenn sem aka á gangandi vegfarendur sem láta lífið réttarstöðu sakbornings á meðan rannsókn málsins stendur yfir.
Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að búast megi við því að rannsókn málsins taki langan tíma. Þá segir hann rannsóknina í fullum gangi og að ekkert verði hægt að gefa upp um hana fyrr en að henni lokinni.
Þá segir Ásmundur Rúnar í samtali við miðilinn að ökumenn hvítrar Teslu og sendibifreiðar, sem auglýst var eftir á dögunum, hafi gefið sig fram og lögreglan tekið skýrslu af þeim. Þá hvetur Ásmundur Rúnar alla þá sem gætu búið yfir upplýsingum um slysið að hafa samband við lögreglu. Það er hægt að gera í síma 444-1000 en upplýsingum má jafnframt koma á framfæri í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is.