Tvö mál eru til rannsóknar hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum þar sem grunur er um kynferðisbrot eftir síðustu nóttina á Þjóðhátíð. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar.
Málin tvö eru í rannsókn. Kona leitaði auk þess aðstoðar lögreglu vegna kynferðisbrots sem hún varð fyrir árið 2017 á höfuðborgarsvæðinu. Hún hyggst leggja fram kæru hjá lögreglunni í Reykjavík.
Sjá einnig:Alvarleg líkamsárás í Vestmannaeyjum – Fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur
Lögreglan hafði áður greint frá öllum málum sem höfðu komið upp á borð hennar um helgina fyrir utan kynferðisbrotamál. Bæði kynferðisbrotamálin sem lögreglan rannsakar komu upp í nótt.
Jón Bragi Arnarsson, varðstjóri hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum, sagði í samtali við Vísi í morgun að síðasta nóttin hefði gengið vel fyrir sig ef miðað er við veður og fjölda fólks á svæðinu.
Talið er að gestir hafi verið 14.000 til 15.000 talsins. Það var samdóma álit viðbragðsaðila að þrátt fyrir nokkurn vind á síðasta degi hafi gengið vel að aðstoða gesti og almennt hafi skipulag gengið vel.