Tvö meinvörp fundust í lifur leikarans Stefáns Karls Stefánssonar í vikunni. Hann fer í jáeindaskanna í Kaupmannahöfn á þriðjudaginn en hann mun gefa frekar upplýsingar um stöðu þeirra og hvort eitthvað fleira sé á ferðinni. Læknar hans telja að þar sem meinin liggja utarlega í lifrinni sé vel hægt að skera hann upp og fjarlægja þau.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, eiginkona Stefáns Karls, segir frá þessu á Facebook. Stefán Karl greindist með illvígt krabbamein í september í fyrra, aðeins 41 árs. Í kjölfarið fór hann í aðgerð og eftir það í geislameðferð. Hann lauk meðferðinni í lok apríl.
Stefán Karl sagði nýlega frá því að hann ætlaði að snúa aftur í leikhúsið og myndi koma fram í Þjóðleikhúsinu. Hann sagðist ætla að byrja rólega og jafnvel koma fram í söngleik um jólin. Þetta kom fram í þættinum Ný sýn í Sjónvarpi Símans en þar ræddi Hugrún Halldórsdóttir við Stefán Karl.