Lögregla lagði hald á úlpu um borð í togaranum Polar Nanoq í síðustu viku.
Úlpan er í eigu þriðja skipverjans sem var handtekinn í skipinu nokkrum klukkutímum á eftir þeim tveimur sem eru nú í haldi lögreglu.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir því að maðurinn hafi gleymt úlpunni í bílaleigubílnum sem skipsfélagi hans hafði á leigu.
Það vakti athygli hans á laugardeginum, 14. janúar, að búið var að setja úlpuna í þvott. Hann velti því þó ekki meira fyrir sér.
Þegar skipinu var snúið við á þriðjudaginn í síðustu viku fór hann að velta málinu betur fyrir sér. Hann gaf sig fram við sérsveitarmenn Ríkislögreglustjóra sem tóku yfir stjórn skipsins og handtóku tvo skipverja, líkt og kemur fram í frétt Fréttablaðsins.
Maðurinn var handtekinn í kjölfarið en honum var sleppt að lokinni yfirheyrslu hjá lögreglu. Búið er að útiloka að hann tengist andláti Birnu Brjánsdóttur.
Áður hefur verið greint frá því að skilríki Birnu hafi fundist við leit um borð en lögregla hefur ekki viljað staðfesta þetta.