Auglýsing

Umfangsmikil leit að Birnu í Hafnarfirði, almenningur beðinn um að trufla ekki störf björgunarsveita

Slysavarnarfélagið Landsbjörg sendi í nótt allsherjarboðun til björgunarsveitafólks í öllum sveitum höfuðborgarsvæðisins sem er á útkallslista.

Umfangsmikil leit verður gerð að Birnu Brjánsdóttur í Hafnarfirði í dag en einnig var leitað á svæðinu í nótt.

Sjálfboðaliðar sem voru að leita að Birnu í gærkvöldi fundu svarta skó af gerðinni Dr. Martens nálægt birgðastöð Atlantsolíu við Óseyrarbraut í Hafnarfirði. Um er að ræða samskonar skó og Birna var í þegar síðast sást til hennar.

Mennirnir tilkynntu fundinn til lögreglu og var leit hafin á svæðinu í kjölfarið. Stóð hún yfir langt fram eftir nóttu.

Sterkur grunur leikur á því að um skópar Birnu sé að ræða, líkt og greint er frá á Vísi. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, sagði í samtali við RÚV auknar líkur séu á því að skórnir séu í eigu Birnu.

Einnig er til rannsóknar hvort skóparinu hafi verið komið fyrir á staðnum, þ.e. að ekki sé um skó Birnu að ræða. Þetta kemur fram á Vísi.

Það björgunarsveitafólk sem hefur kost á því að taka þátt í leitinni var beðið um að mæta til Hafnarfjarðar kl. 10.30 í dag og hefst leit fljótlega eftir það. Áhersla verður lögð á leit í kringum birgðastöð Atlantsolíu.

Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, gerir ráð fyrir góðri þátttöku í leitinni.

Hann segir að það sé mikilvægt að fólk hafi augun opin og haldi áfram að fylgjast með í sínu nærumhverfi en björgunarsveitafólk fái frið til að sinna störfum sínum í dag.

„Í öllum leitum, það á ekki síður við í dreifbýli, þá skiptir máli að fólk fylgist með og við höfum óskað eftir því að fólk fylgist með sínu nærumhverfi og sé með augun opin. Það er líka tilgangurinn með því að lýsa eftir fólki. Fólk sem var á ferli í gærkvöldi vísaði á skóparið. Að því leytinu til er aðstoð almennings mjög góð en á skilgreindum leitarsvæðum, þar sem við erum að nota okkar aðferðafræði, þá þykir okkur betra að vera ein, að fá að sinna þeim störfum í friði,“ segir Þorsteinn í samtali við Nútímann.

Hvað gerðist í gærkvöldi og í nótt?

Sjálfboðaliðar sem voru að leita að Birnu fundu skóparið við Hafnarfjarðarhöfn nálægt birgðastöð Atlantsolíu við Óseyrarbraut í Hafnarfirði í gærkvöldi. Þeir tilkynntu fundinn til lögreglu.

Sá sem fann skóinn var í hópi sem hafði leitað við Kaldársel fyrr um kvöldið en skórinn fannst ekki þar. Misskilningur um að skórinn hafi fundist þar breiddist hins vegar hratt út á samfélagsmiðlum en í fréttum fjölmiðla kom einnig fram að skórinn hafi fundist þar. Lögregla kom skilaboðum til hópsins á Facebook um að halda sig fjarri umræddum svæðum.

Í kjölfarið hófst leit á svæðinu en um sextíu björgunarsveitamenn leituðu fram eftir nóttu. Hundar og drónar með hitamyndavélum voru notaðir við leitina. Leitað var á opnum svæðum og meðfram strandlengjunni. Lögreglumenn og sérsveitarmenn tóku einnig þátt í leitinni.

Sterkur grunur leikur á að skórnir sem fundust í gærkvöldi tilheyri Birnu en það hefur þó ekki verið staðfest. „Þar sem við höfum sterkan grun þá þorðum við ekki öðru en að kalla til allt sem við getum kallað til,“ sagði Ágúst Svansson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Vísi í nótt.

Mál Birnu er enn flokkað sem mannshvarf en ekki sakamál. Enginn liggur undir grun eftir nóttina og hafa engar frekari vísbendingar fundist aðrar en skóparið.

Tæknideild lögreglu hefur fengið skóna til að sannreyna hvort þeir tilheyri Birnu.

Athygli hefur vakið að snjó var undir skónum þegar þeir fundust við höfnina. Um þrír sólarhringar eru liðnir síðan Birna hvarf og var nokkuð hlýtt á suðvesturhorni landsins á sunnudag. Öllu kaldara var í gær og snjóaði. „Ég tek alveg undir það að það er merkilegt,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjón sem stýrir rannsókn málsins, í samtali við Vísi, aðspurður um snjóinn undir skónum.

Þeir sem kunna að hafa einhverjar upplýsingar eru beðnir að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444 1000. 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing