Umsjónarmaður Hólavallagarðs, við Suðurgötu í Reykjavík, segir kannabisneysla ungmenna í garðinum hafi aukist mikið síðustu mánuði. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Heimir Björn Janusarson, umsjónarmaður garðsins segir í samtali við Fréttablaðið að ungmenni, allt niður í 14 ára gömul sæki í garðinn á skólatíma til að reykja gras.
„Þetta hefur snaraukist síðustu mánuðina og færst yfir á aðra tíma sólarhringsins. Einu sinni var þetta bara á kvöldin og á nóttunni en nú eru þetta líka ungir krakkar. Þau eru orðin svo óforskömmuð að þeim finnst þetta bara eðlilegt fyrir framan annað fólk,“ segir Heimir í Fréttablaðinu.
Heimir birti færslu um málið inn í lokuðum Facebook-hópi Vesturbæinga í gærkvöldi. Þar hvatti hann foreldra til þess að ræða við börnin sín.