Una Torfadóttir segist hafa fundið fyrir því að strákar og kennarar hennar hafi reynt að þagga niður í henni þegar hún hefur tjáð sig um stöðu kynjanna og jafnréttismál. Hún hvetur stráka til þess að hræðast ekki stelpur sem taka pláss.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Unu í bókinni Forystuþjóð sem kemur út í vikunni. Una er ein þeirra sem tók þátt í siguratriði Hagaskóla í Skrekk 2015, Elsku stelpur og er nú nemandi í Menntaskólanum í Reykjavík. Þegar viðtalið var tekið við hana var hún enn nemandi í Hagaskóla.
„Ég finn fyrir því að strákar reyna að þagga niður í mér en að sama skapi hef ég náð að ávinna mér ákveðna virðingu á meðal samnemenda minna. Ég hef þurft að vinna fyrir þessu; það er ekkert gefins fyrir stelpur og það er eitthvað sem ég finn sterkt fyrir,“ segir Una í viðtalinu.
Það eru ekki aðeins strákar sem hafa reynt að þagga niður í Unu.
„Ég finn líka stundum fyrir því að kennarar reyna að þagga niður í mér þegar ég rökræði við strákana. Þú átt að vita betur Una. Ég á vera kurteis og til fyrirmyndar; ég á að vera stelpa. Og það er óþægilegt þegar ég berst gegn því,“ bætir Una við og vísar þar til kennara í Hagaskóla.
Una segir að ungir strákar eigi ekki að hræðast stelpur sem taka pláss. Það sé lykilatriði að sameinast, eitt afl megi ekki vinna á móti öðru.
„Talið fyrir þeim málum sem ykkur finnst mikilvæg og takið þátt í umræðunni þegar ykkur finnst þið eigið erindi. Gefið ykkur tíma til að koma inn í samtalið. Ég sjálf þarf oft tíma til þess að átta mig á minni afstöðu. Ykkar rödd skiptir líka máli,“ segir Una.
Forrystuþjóð er viðtalsbók um stöðu jafnréttismála á Íslandi árið 2017. Þar deila valinkunnir Íslendingar skoðunum sínum, áskorunum og árangri í jafnréttismálum. Þær Edda Hermannsdóttir og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir skrifa bókin og kemur hún út fimmtudaginn 16. febrúar.