Tveir karlar um tvítugt sem töluðu framandi tungumál á meðan þeir rændu fötum ungra drengja í Hafnarfirði í síðasta mánuði voru á föstudaginn úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 17. október að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Nútíminn greindi frá handtöku mannanna í lok ágúst en laganna verðir höfðu hendur í hári þeirra fyrir utan verslunarmiðstöðina Fjörðinn mánudaginn 19. ágúst.
Þeir höfðu þá skömmu áður hótað ungum drengjum með hníf, skipað þeim að afklæða sig og stungu svo af með fötin þeirra. Nútíminn birti myndskeið af handtöku mannanna fyrir utan Fjörðinn og vakti fréttin mikla athygli en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni eru þeir grunaðir um fjölda brota, meðal annars nokkur rán á höfuðborgarsvæðinu í ágúst.
„Ég hringdi strax á lögregluna og ég verð bara að hrósa þeim fyrir að hafa komið jafn skjótt á vettvang og raun bar vitni. Það er eins og þeir hafi þekkt þennan hóp því þeir gengu strax til verks og handtóku þá,“ sagði forráðamaður eins drengjanna sem ræddi við Nútímann skömmu eftir handtökuna.
Ungu drengjunum var töluvert brugðið enda höfðu þeir allir þurft að afklæða sig rétt hjá Víðistaðatúni á meðan að hópur karlmanna, sem var töluvert eldri en þeir, otuðu að þeim hníf og öskruðu á þá á tungumáli sem þeir skildu ekki. Einn þeirra glataði úlpunni sinni, annar skóm og sá þriðji bæði síma og úri.