Ungir Sjálfstæðismenn á Akureyri hafa látið lita íslenska landsliðsbúninginn svartan á auglýsingum sínum á Facebook fyrir kosningarnar á laugardaginn. Óheimilt er að nota búninginn í markaðslegum tilgangi og á Vísi kemur fram að Sjálfstæðismennirnir ungu fyrir norðan hafi beðist afsökunar á því að hafa klæðst treyjunni í auglýsingum.
KSÍ greindi frá því á dögunum að auglýsingastofan PiparTBWA hafi tekið að sér vörumerkjavöktun í aðdraganda HM í knattspyrnu 2018. „Samningurinn felur í sér að PIPARTBWA gæti hagsmuna KSÍ og sinni vörumerkjavöktun fyrir knattspyrnusambandið,“ segir á vef KSÍ.
Darri Johanssen hjá PiparTBWA segir í samtali við Vísi eðlilegt að fólk viti ekki hvar línurnar í þessu liggja en bannað er að nota búningana í markaðslegum tilgangi þó einstaklingum sé að sjálfsögðu heimilt að birta myndir af sér í búningunum.
„KSÍ tjáði þeim þá að það gæti ekki heimilað þessa tilteknu notkun á búningnum. Þau brugðust hratt og vel við og tóku myndina úr birtingu um leið, fannst þetta afar leiðinlegt, báðust velvirðingar á því og þannig lauk málinu. Engir eftirmálar,“ segir hann á Vísi.