Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna svarar Ungum Sjálfstæðismönnum, sem hvöttu Sjálfstæðisflokkinn til að slíta stjórnarsamstarfi við Framsókn á dögunum, fullum hálsi í nýrri ályktun.
Ungir Framsóknarmenn sendu frá sér ályktun rétt í þessu þar sem lýst er yfir fullum stuðningi við ríkisstjórnarsamstarf Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Þá gerir félagið alvarlegar athugasemdir við það sem það kallar „rangfærslur Sambands ungra sjálfstæðismanna.“
Í ályktun ungra Framsóknarmanna segir að athugasemdir SUS séu ýmist byggðar á rangfærslum eða pólitískum öfgum:
Svo dæmi sé tekið hafa Framsóknarmenn ekki lagst gegn komu verslunarkeðjunnar Costco, til landsins, þeir hafa þvert á móti fagnað möguleikanum á aukinni samkeppni í matvöruverslun. Framsóknarmenn hafa hins vegar hafnað því að landslögum sé breytt að kröfu eins fyrirtækis án frekari skoðunar. Ungir sjálfstæðismenn virðast hins vegar tilbúnir til að láta kröfur stórfyrirtækja ráða því hvernig lög landsins líta út.
Þá segir að Framsóknarmenn hafi ekki lagst gegn skattalækkunum. „Þvert á móti hafa þeir lýst efasemdum um hækkun neðra þreps virðisaukaskatts og viljað fá staðfestingu á því að heildarálögur á almenning, sérstaklega þá tekjulægri, komi til með að lækka með breytingum á skattkerfinu eins og forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa lagt áherslu á,“ segir í ályktuninni.
Þá lýsir Samband ungra framsóknarmanna yfir mikilli ánægju með skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar.
Ungir Framsóknar menn segjast hafa áhyggjur af því sem þeir kalla öfgakennda hugmyndafræði í nýsamþykktri stefnu Sambands ungra Sjálfstæðismanna og segja að hún sé „gegnsýrð af óheftri nýfrjálshyggju“:
Skammt er að minnast þess að SUS lagði fram fjárlagatillögur byggðar á svipuðum grundvelli undir yfirskriftinni „Sýnum ráðdeild“.
Í tillögunum lýsa ungir sjálfstæðismenn vilja sínum til að leggja niður jafnréttissjóð, Jafnréttisstofu, Raunvísindastofnun Háskólans,Þjóðminjasafnið, Þjóðleikhúsið, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Launasjóð listamanna, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Rannsóknarsjóð, Rannsóknarmiðstöð Íslands, Stofnun Árna Magnússonar, Fornleifavernd ríkisins, Fiskistofu, Hafrannsóknarstofnun, Verkefnasjóð sjávarútvegsins, Siglingastofnun og Flugmálastjórn, Jöfnunarsjóð sveitarfélaga svo dæmi séu tekin.