Auglýsing

Unnur Eggerts fékk sömu verðlaun og Robert Redford: „Eins og að fá tryllt gott meðmælabréf“

Unnur Eggertsdóttir útskrifaðist í gær sem leikkona frá The American Academy of Dramatic Arts í New York. Unnur fékk aðalverðlaun útskriftarinnar sem besta leikkona árgangsins, sem taldi rúmlega 100 nemendur.

Sjá einnig: Sjáðu Unni Eggerts flytja 50 Cent slagarann P.I.M.P

Verðlaunin eru kennd við Charles Jehlinger, sem kenndi m.a. Grace Kelly og Kirk Douglas í þessum skóla og á meðal fyrri verðlaunahafa eru Spencer Tracy og Robert Redford.

Unnur segir í samtali við Nútímann að verðlaunin hafi þegar opnað nokkrar dyr, aðeins klukkustundum eftir að hún fékk þau afhent. „Þetta er mjög klikkað,“ segir hún.

Fyrrverandi nemendur, sem eru starfandi í dag í bransanum ýmist sem leikarar, framleiðendur eða leikstjórar, fylgjast með hver fær þessi verðlaun á hverju ári og setja sig oft í samband við aðilann. Þetta er í raun eins og að fá tryllt gott meðmælabréf.

Kennararnir þurfa að vera sammála um hver fær verðlaunin og allt sem nemendurnir hafa gert síðan skólagangan hófst er undir. „Ég er samt ennþá sannfærð um að ég hafi bara unnið eitthvað teningakast,“ segir Unnur létt.

Hún segir að nú séu framundan spennandi en erfiðir tímar. „Nú er bara að mæta í hverja einustu prufu sem ég kemst í. Hvort sem það er fyrir stóra sýningu á Broadway eða fyrir klósettburstaauglýsingu,“ segir hún.

„Það er biluð samkeppni hér milli leikara en eftirspurnin eftir þeim er líka svakaleg. Svo ég hleyp milli prufa og reyni að sannfæra fólk um að ráða mig í einhver verkefni.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing