Auglýsing

Unnur Mjöll segir frá tveggja ára ofbeldissambandi: „Ég hundsaði merkin”

Unnur Mjöll Harðardóttir segir sögu sína úr tveggja ára ofbeldissambandi. Sagan er hluti af átakinu Þekktu rauðu ljósin. Sjáðu myndbandið hér að neðan.

Unnur segir að sambandið hafi verið stjórnunarsamband með mikilli afbrýðisemi og að maki hennar hafi algjörlega ráðið öllu. Hún segir að ofbeldið hafi verið andlegt, líkamlegt og kynferðislegt.

Líkamlega ofbeldið byrjaði þegar þau fluttu inn saman en Unnur segir að þá hafi hún verið svolítið föst.

„Þetta þróast svo mikið, þetta byrjar þegar hann fer að kasta hlutum eða lemur í borð. Svo fara hlutirnir að lenda á manni og svo byrja höggin að koma.”

Unnur segir að líkamlega ofbeldið hafi aukist og að hún hafi upplifað mikið svefnleysi. Að lokum hafi hún ákveðið að yfirgefa hann og segist í kjölfarið hafa upplifað mikið frelsi.

„Ég gat ráðið hvert ég myndi fara og hvað ég væri lengi. Ég þurfti ekki alltaf að drífa mig heim. Ég veit ekki hversu mikið ég knúsaði fjölskyldu mína.”

Hún segist hafa fengið viðvaranir um hann en að hún hafi ekki trúað þeim vegna þess að hann hafi verið svo góður og fullkominn í byrjun sambandsins.

„Þegar ég bar upp á hann það sem ég hafði heyrt sagði hann bara að fyrrverandi kærasta hans væri geðveik og þetta væri allt saman kjaftæði.”

Horfðu á sögu Unnar hér

Herferðin Þekktu rauðu ljósin er svar Kvennaathvarfsins og Bjarkarhlíðar við síaukinni eftirspurn ungs fólk eftir aðstoð vegna ofbeldis í nánum samböndum. Umræðan um ofbeldi í nánum samböndum beinist oft að fólki sem hefur búið saman og ofbeldið átt sér stað innan veggja heimilisins en skortur er á efni sem beint er til fólks sem er að hefur nýhafið samband.

Herferðin miðar að því að minna á að ofbeldi birtist smátt og smátt í samböndum, að ýmis viðvörunarmerki eru oft undanfari ofbeldisins.  Vitundarvakningin felst í stuttum myndböndum þar sem nokkrar hugrakkar konur sem stigið hafa út úr ofbeldissamböndum líta til baka og ræða viðvörunarljósin sem birtust í sambandinu þó þær hafi ekki séð þau fyrr en of seint. Það er von okkar að þessi vitundarvakning auki skilning fólks á ofbeldi í nánum samböndum og hjálpi fólki að sjá rauðu ljósin áður en til ofbeldis kemur.

„Það er von okkar að þessi vitundarvakning auki skilning fólks á ofbeldi í nánum samböndum og hjálpi fólki að sjá rauðu ljósin áður en til ofbeldis kemur.”

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Rauðu ljósanna. Einnig er hægt að kynna sér úrlausnir hjá Bjarkarhlíð og Kvennaathvarfinu.

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing