Fjölmiðlar um allan heim hafa fjallað um ummæli Guðna Th. Jóhannessonar um ananas á pizzur. Guðni svaraði spurningum nemenda í Menntaskólanum á Akureyrir í síðustu viku og sagðist helst vilja banna ananas á pizzu. Vísir greip ummælin á lofti og birti frétt sem klauf þjóðina í herðar niður — fólk var annað hvort hjartanlega sammála eða mjög ósammála forsetanum.
Málið rataði svo í heimsfréttirnar í vikunni og hafa margir af helstu fjölmiðlum heims fjallað um málið. Upphafsmaður þess að setja ananas á pizzu blandaði sér svo í málið í dag í viðtali á vef kanadísku útvarpsstöðvarinnar CBS Radio.
Hinn 82 ára gamli Sam Panopoulos er talinn vera upphafsmaður pizzu sem flestir kalla Havaí en hún er með skinku og ananas. Í viðtali útvarpsstöðvarinnar sagði hann að Guðni hafi ekki einu sinni verið fæddur þegar hann fann upp á því að setja ananas á pizzu.
„Það er svo langt síðan. Það var ekkert einkaleyfi. Enginn á þetta. Það á enginn nafnið eða neitt. Hvernig getur þetta verið ólöglegt?“ spurði Sam, sem virtist ekki alveg með á nótunum.
„Hann getur gert það sem hann vill,“ sagði Sam spurður um völd Guðna, sem lýsti þó yfir á Facebook-síðu sinni í dag, á ensku og íslensku, að hann hafi engin völd til að banna ananas á pizzur. Hann bætti meira að segja við honum þyki ananas góður, bara ekki á pizzur.
Og Sam bætti við að honum væri hreinlega sama um hvað Guðni gerir. Í yfirlýsingu sinni mælti Guðni með að fólk setti sjávarétti á pizzur, eitthvað sem Sam skilur vel. „Hann selur fiskinn þarna. Það er eina sem hann gerir. Þannig að hann verður að setja fisk á pizzu.“
Spurður hvort hann vilji koma einhverju á framfæri til forsetans segist hann ekki þekkja Guðna. „En hann ætti að vita betur. Hann er reyndar miklu yngri en ég og ég var að gera pizzur þegar ég var ungur, veistu hvað ég meina?“