Vagnstjóri hjá Strætó er í haldi lögreglu grunaður um ölvunarakstur eftir að hafa ekið á tvær bifreiðar í Kópavogi í gær. Hann verður yfirheyrður í dag en forsvarsmenn Strætó líta málið alvarlegum augum. Vísir greinir frá.
Strætisvagninum var ekið á miklum hraða á tvo bíla í hringtorgi á gatnamótum Dalvegs og Smiðjuvegs í Kópavogi síðdegis en tilkynnt var um atvikið á sjötta tímanum í gær. Vagninn var á svo mikilli ferð að hann hafnaði upp á umferðareyju eftir að hafa rekist á bílana tvo.
Guðmundur Heiðar Helgason, markaðs- og upplýsingafulltrúi Strætó segir fyrirtækið harma það sem gerðist í gær.
„Miðað við hvað ölvunarakstur yfir höfuð er alvarlegt brot, og að við erum fyrirtæki sem er að keyra almenning á öllum aldri, þá er þetta ennþá alvarlegra í okkar tilviki,“ sagði Guðmundur í samtali við Vísi.
Vagnstjórinn var handtekinn og gisti fangageymslur lögreglu í nótt en hann verður yfirheyrður í dag. Guðmundur segir fyrirtækið bíða þar til lögreglan klárar rannsókn málsins en ef komi í ljós að vagnstjórinn hafi verið ölvaður eigi hann ekki afturkvæmt í starf sitt hjá fyrirtækinu.
Guðmundur segist ekki hafa upplýsingar um meiðsli farþega strætisvagnsins en ökumaður og farþegar í öðrum bílnum sem vagninum var ekið á kvörtuðu undan eymslum í hálsi og höfði. Hann hvetur alla til að fá viðeigandi áverkavottorð og hafa samband við þjónustuver Strætó ef það vantar frekari upplýsingar.