Druslugangan hefur gefið út bókina Ég er drusla en í henni tjá sig yfir 40 einstaklingar um ofbeldismenningu, samfélagið og lífið. „Listaverk, teikningar, greinar, möntrur, ljósmyndir og sögur fanga orkuna sem myndast árlega í Druslugöngunni þar sem fólk sameinast í baráttunni gegn ofbeldi með valdeflingu og pönki,“ segir í lýsingu á bókinni.
Druslugangan hefur verið gengin á Íslandi frá árinu 2011 og þúsundir hafa tekið þátt. Á meðal þess sem er að finna í bókinni eru sögur þolenda. Í viðtali við mbl.is segir Hjalti Vigfússon, einn skipuleggjenda Druslugöngunnar, að sögurnar snúi að vendipunktum í bataferli þeirra og að tilgangurinn sé að valdefla. „Það sem við sjáum í viðtölum eru oft ofbeldissögur og lýsingar á því ofbeldi sem átti sér stað,“ segir hann á mbl.is.
Við vildum frekar einblína á það jákvæða; hvenær eitthvað breyttist í bataferlinu hjá þolendum.
Útgáfupartí bókarinnar fer fram í Gamla Nýló, Skúlagötu 28, í dag klukkan 18. Í viðburðinum á Facebook kemur fram að allir sem komu að bókinni hafi gefið vinnu sína og að leitast hafi verið við að halda öllum kostnaði í lágmarki svo sem flestir eigi kost á að eignast hana. Mögulegur ágóði rennur svo óskiptur til Druslugöngunnar og áframhaldandi baráttu gegn kynferðisofbeldi.
Druslugangan verður svo gengin 29. júlí frá Hallgrímskirkju.