Auglýsing

Varpar ljósi á vígsluathöfn landsliðsins, strákarnir alveg að skíta á sig af stressi

Allir góðir hópar krefjast þess að nýir menn gangist undir þrekraun ætli þeir sér að fá inngöngu. Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er enginn eftirbátur þar. Þegar leikmenn eru valdir í hópinn í fyrsta skipti þurfa þeir að gera tvennt sem flestir knattspyrnumenn hræðast: Syngja og halda ræðu. Þetta kemur fram í bókinni Áfram Ísland, eftir fjölmiðlamanninn Björn Braga Arnarsson.

Bókin fjallar um íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu og leið þess í lokakeppni EM 2016. Þar er að finna fjöldan allan af viðtölum og sögum af því sem gerist á bakvið tjöldin. Markvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson segir í bókinni að nýju mennirnir í landsliðinu fái að vita af vígslunni um leið og þeir mæta.

„Þetta eru svakalegir töffarar en þegar það kemur að þessu eru þeir alveg að skíta á sig af stressi,“ segir hann.

Menn þurfa að halda mínútu langa ræðu, þar sem þeir lýsa því hvernig þeim leið þegar þeir voru valdir í landsliðið, og svo þurfa þeir að syngja lag án undirleiks.

Spurður út í eftirminnilegar vígsluathafnir félaga sinna segir Gunnleifur: „Þeir eru flestir skelfilegir,“ en minnist sérstaklega á nýjustu stjörnu landsliðsins, Jón Daða Böðvarsson. Jón Daði kemur frá Selfossi og söng lagið Bahama með Ingó og Veðurguðunum. „Þá gat ég ekki einu sinni hlegið,“ segir Gunnleifur og hristir höfuðið.

Markaskorarinn Alfreð Finnbogason lék sinn fyrsta landsleik árið 2010 og var að sjálfsögðu vígður í hópinn eftir hefðinni. „Þetta var óneitanlega svolítið stressandi. Það er alltaf vandræðalegt að þurfa að syngja fyrir framan hóp af fólki,“ segir Alfreð í bókinni.

Sjá einnig: Ragnar Sigurðsson var með skólarapp á heilanum í erfiðum leik gegn Hollandi

Hann gat þó huggað sig við að vera ekki einn í þeirri stöðu þegar vígslan fór fram. „Þetta var skárra í mínu tilviki því við vorum fimm eða sex nýir og allir þurftu að syngja.“ Alfreð tók lagið Myndir með hljómsveitinni Skítamóral og er langt frá því að vera sá eini sem leitað hefur í smiðju þeirrar hljómsveitar eftir vígslulagi.

„Eftir að maður er búinn að þessu sjálfur er yndislegt að horfa á nýju mennina syngja. Ég fæ samt alltaf kjánahroll,“ segir Alfreð.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing