Alvöru sumarveður var á höfuðborgarsvæðinu í dag og víðar en blaðamaður Nútímans var staddur í miðbænum og ræddi við nokkra Íslending sem spókuðu sig í gulu vinkonu okkar sem hefur ekki verið mikið að láta sjá sig í sumar.
„Loksins er komið sumar segi ég nú bara,“ sagði Ragnhildur við blaðamann Nútímans en hún og eiginmaður hennar sátu utandyra og borðuðu risarækjur við Vegamótastíg 7 þar sem veitingastaðinn Dass Reykjavík er að finna. Mikið líf er í miðbænum og í raun borginni allri og voru flestir á því máli að sumarið mætti loksins koma – ekki væri of seint í rassinn gripið.
Mælar sýndu 21 gráðu
Ekki er spáð sól á morgun en samt sem áður ágætis veðri – að minnsta kosti miðað við aðra daga en spáð er hægri norðlægri eða breytilegri átt. Skýjað að mestu norðan- og austanlands og sums staðar lítilsháttar væta. Bjart með köflum sunnantil, en stöku skúrir. Hægviðri á morgun. Skýjað með köflum og úrkomulítið, en dálítil rigning austanlands og líkur á síðdegisskúrum á Suðurlandi. Hiti 7 til 14 stig.
Sumir mælar, þá sérstaklega þeir sem finna má í bifreiðum, sýndu allt að 21 stigs hita í Reykjavík í dag. Eitt er ljóst að íbúar höfuðborgarsvæðisins og allir þeir þúsundir ferðamanna sem hafa sótt landið heim eru meira en sátt við blíðveðrið sem hefur leikið við þau í dag.