„Það styttir ekkert upp áður en þessi ákefð hefst í nótt, það rignir stöðugt fram á fimmtudag,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við Nútímann.
Sjá einnig: Sjaldgæfur og jafnvel hættulegur úrkomuatburður næstu daga, meira en 100 mm á sólarhring
Í nótt, á morgun og á fimmtudag er spáð mikilli rigningu, meira en 100 mm á sólarhring, á svæðunum frá austanverðum Vatnajökli í austri, á öllu Suðaustu- og Suðurlandi og norður með Vesturlandi að Ísafjarðardjúpi.
Langvarandi úrkomuatburðir sem þessir eru mjög sjaldgæfir og aðstæður og afleiðingar því ókunnar og jafnvel hættulegar.
Umferð mun ganga hægar fyrir sig vegna lítils skyggnis og fólk ætti að klæða sig vel til að rennblotna ekki þegar það fer úr bílnum og inn í búð.
„Maður mun örugglega þurfa að hafa rúðuþurrkurnar á fullu og það verða allar rásir á vegum fullar af vatni,“ segir Elín um áhrif úrkomunnar næstu daga.
Fólk hefur verið hvatt til að huga að niðurföllum og fjarlægja laufblöð og annað frá niðurföllum. Vatn gæti auðveldlega flætt inn í kjallara komist vatn ekki leið sína.