Skrifstofa forseta Íslands sendi í dag frá sér tilkynningu um hvernig veitingu fálkaorðunnar til erlendra ríkisborgara væri háttað. Tilefnið er veiting orðunnar til Piu Kjærsgaard forseta danska þingsins sem kom upp fyrr í vikunni.
Í kjölfar fregnanna skilaði Elísabet Rolandsdóttir fálkaorðu sinni sem hún hlaut árið 2016. Greint er frá þessu á vef Vísis en fréttatilkynninguna er hægt að skoða í heild sinni á vefsíðu forsetans.
Sjá einnig: Guðni forseti veitti Piu Kjærsgaard stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu
Í tilkynningunni kemur fram að ýmsar reglur, samningar og hefðir gildi um veitingu hinnar íslensku fálkaorðu til erlendra ríkisborgara. Sérstakar reglur gildi til dæmis víða í Evrópu um gagnkvæmar orðuveitingar í tenglsum við opinberar heimsóknir þjóðhöfðingja og á Íslandi eigi þessar reglur einkum við um opinberar heimsóknir forsetans til hinna norrænu ríkjanna og opinberar heimsóknir þjóðhöfðingja þeirra til okkar.
Sjá einnig: Elísabet Rolandsdóttir skilar fálkaorðunni sinni: „Ég get ekki verið í riddaraklúbbi með kynþáttahatara“
Embættismenn í ríki gestgjafans leggi fram tillögu fyrir hönd þarlendra stjórnvalda um einstaklinga sem veita megi orðu gestaríkisins. Eins er lögð fram tillaga af hálfu gestaríkis um einstaklinga sem veita megi orðu gestgjafaríkisins.
Þá er það sérstaklega tekið fram að á Íslandi kemur orðunefnd ekki nærri þessu ferli. Forsetinn veiti hina íslensku fálkaorðu en við opinberar heimsóknir ytra er hún jafnfram afhent orðuhafa án þess að forseti sé nærri.