Veitingabíllin The Gastro Truck sem staðsettur er á höfuðborgarsvæðinu mælir með því að viðskiptavinir sem kaupa stökkar kjúklingalundir af barnamatseðli skoli réttinum niður með bjór af gerðinni Einstök White Ale.
Það var Twitter-notandinn Mist Rúnarsdóttir sem vakti athygli á málinu á Twitter síðu sinni í dag. „Gastro truck þekkir vel inn á blessuð börnin. Skál fyrir þeim,“ skrifaði Mist í tísti sem vakið hefur talsverða athygli.
Gastrotruck þekkir vel inná blessuð börnin. Skál fyrir þeim! ? pic.twitter.com/MB7gfPIH3K
— Mist Rúnarsdóttir (@MistRunarsdotti) October 1, 2018
Gylfi Bergmann eigandi Gastro Truck var léttur í bragði þegar Nútíminn ræddi við hann í dag vegna málsins. Hann sagði greinilegt að um mistök væri að ræða „Já það er margt skrýtið í kýrhausnum. Við vorum að setja inn nýjan matseðil og greinileg copy/paste vinna þarna á ferð,“ sagði Gylfi.
Hann vonar að mistökin eigi ekki eftir að skaða neinn. „Ég trúi því nú ekki að fólk taki þessu alvarlega. Það er bara gaman að þessu,“ sagði Gylfi sem hugðist fara í það að laga nýja matseðilinn.