Við fyrstu sýn virðist vændissíðan Girls of Paradise ósköp venjuleg síða af þessu tagi. Þar er að finna myndir af konum á nærförum og hægt er að óska eftir samskiptum við þær í gegnum netspjall eða síma.
Konurnar eiga reyndar allar eitt sameiginlegt, þær eru allar látnar. Að því kemst viðskiptavinurinn þegar hann velur konu á síðunni og byrjar að spjalla. Það er líka annað. Þetta er ekki vændissíða, þetta er vitundarvakning á vegum frönsku samtakanna Le Mouvement du Nil og McCann Paris sem hefur vakið töluverða athygli.
Markmiðið er að sýna viðskiptavinum vændiskvenna að með því að kaupa vændi eigi þeir þátt í viðhalda ofbeldi gegn konum.
Þegar viðskiptavinurinn byrjar að spjalla við „vændiskonu“ sér hann myndir af konunni þar sem hún er blóðug eftir barsmíðar. Sumir viðskiptavinir fá einfaldlega þau skilaboð að vændiskonan sé ekki til taks þann daginn þar sem hún hafi verið myrt á hrottalegan hátt.
Girls in Paradise bárust 600 símtöl fyrstu vikuna og mörg þúsund skilaboð í gegn netspjall.
Í myndbandi sem gert var um verkefnið má meðal annars heyra viðbrögð eins viðskiptavinarins þegar hann fékk þau skilaboð að konan sem hann vildi ræða við hefði fundist látin í íbúð sinni eftir að hafa verið stungin 53 sinnum.