Vefverslunin Frjósemi.is hóf sölu á svokölluðum kynjaprófum í síðustu viku. Með þeim á að vera hægt að hafa áhrif á kyn barnsins. Prófið sem um ræðir er egglospróf.
Á vefsíðunni Doktor.is segir að best sé fyrir fólk sem óskar eftir því að eignast barn að hafa samfarir um það leyti sem konan hefur egglos.
LH-hormónið, sem einnig er kallað gulbúsörvandi hormónið, í líkamanum eykst mikið um það bil einum og hálfum sólarhring fyrir egglos og er það góð vísbending um hvort egglos hafi orðið.
Egglosprófin sýna styrk hormónsins í þvaginu. Einnig er hægt að mæla líkamshita að morgni en hitinn hækkar við egglos hjá konum. Með því að fylgjast með egglosi á þennan hátt er mögulegt að tímasetja samfarir þannig að meiri líkur séu á frjóvgun.
Eigandi Frjósemi.is, Sæunn María Borgþórsdóttir, segir í samtali við Nútímann að þegar sé mikil eftirspurn eftir prófunum.
Ég fer að leggja inn aðra pöntun fljótlega.
Hún segist hafa tekið eftir mikill umræðu um prófin hér á landi en hefur ekki heyrt sögur af árangri notenda hér á landi. „Þetta er voðalega vinsælt erlendis,“ segir Sæunn María.
Hafi samfarir fyrir egglos, vilji fólk eignast stúlku
Fjallað er um vöruna á síðu fyrirtækisins. Þar segir að prófið hafi verið hannað með „nýrri, háþróaðri tækni“ sem eigi að gera þeim sem noti kynjaprófið kleift að mæla LH-hormónið með nákvæmari hætti en áður. Því eigi að vera hægt að tímasetja samfarirnar ef getnaður er í huga. Það sé sérstaklega gagnlegt fyrir þá sem nota svokallaða Shettles-aðferð.
Aðferðin er kennd við Landrum B. Shettles og var hún kynnt til sögunnar í bókinni How to Choose the Sex of Your Baby sem kom fyrst út árið 1971.
Á Frjósemi.is segir að til að búa til dreng eigi sæðing að eiga sér stað eins nálægt því augnabliki og egglos á sér stað og mögulegt er. Vilji pari aftur á móti eignast stúlku ættu þau að hafa samfarir tveimur og hálfum til þremur dögum fyrir egglos. Þá er aðferðin sögð vera „vísindalega sönnuð“ til að ná settum árangri.
Fjallað er um ákvörðun kyns á Vísindavefnum. Þar segir að ef ætlunin er að eignast stúlkubarn sé hægt að auka líkur á því með því að hafa samfarir um það bil fjórum sólarhringum fyrir egglos og helst ekki aftur fyrr en að viku liðinni. Ef ætlunin er að eignast sveinbarn aukast líkur á að það takist ef beðið er með samfarir þangað til egglos hefur orðið.
„Það má þó ekki gleyma því og rétt að leggja enn og aftur áherslu á að þetta getur mögulega aukið líkurnar en er alls ekki óbrigðul aðferð,“ segir á Vísindavefnum.