Viðar Örn Kjartansson landsliðsmaður i fótbolta segir tveggja ára óskilorðsbundinn dóm yfir Erlendi Eysteinssyni, fyrrverandi sambýlismanni móður hans skammarlegan og segist sjaldan hafa orðið jafn reiður og þegar hann heyrði niðurstöðuna. Maðurinn var dæmdur fyrir að hafa brotið ítrekað gegn Ásdísi Viðarsdóttur.
Dómurinn féll í Hæstarétti í fyrradag og var fjórtán mánaða dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra þar með þyngdur um tæpt ár. Í dómi Hæstaréttar segir að Erlendur hafi gerst sekur um alvarleg brot, hann hafi sýnt sterkan og einbeittan brotavilja og hann eigi sér engar málsbætur.
Ásdís sagði sögu sína fyrst í Kastljósi vorið 2014. Hún hafði þá flutt til Þórshafnar á Langanesi undan hótunum og áreiti Erlends. Þau höfðu átti í stuttu sambandi árið 2011 og hann á þeim tíma beitt hana alvarlegu ofbeldi. Eftir að hún sleit sambandinu hóf hann að áreita hana og hóta henni.
Nálgunarbann hafði lítil áhrif. Ítrekuð mistök lögreglu við rannsókn ofbeldisbrota Erlends á hendur henni urðu til þess að hluti þeirra fyrndist, en tafir urðu á öðrum.
Síðan hafa nálgunarbönn ítrekað verið sett á Erlend. Þau hefur hann þó margsinnis rofið. Í sumar hlaut hann svo 14 mánaða fangelsisrefsingu í héraðsdómi fyrir ofbeldi gegn Ásdísi og vel á annað þúsund brot á nálgunarbanni, símhringingar og textaskilaboð sem innihéldu hótanir í garð hennar og ættingja hennar, líkt og kemur fram í frétt RÚV.
„Ég var svo sem búin að ákveða það sjálfur að tala sem minnst um þetta mál og vera ekki að pirra mig mikið á þessu,“ segir Viðar Örn í skriflegu svari við fyrirspurn Nútímans.
En þetta var það fyrsta sem ég sá netinu þegar ég tók upp símann í fyrradag. Og ég hef sjaldan orðið jafn reiður.
Hann segir að veikir einstaklingar, líkt og Erlendur, séu líklegir til alls og það sé eins og búið sé að bíða eftir því að hann gangi skrefinu lengra. „Mér finnst þessi dómur skammarlegur af því að um leið og hann verður búinn að afplána þá byrjar hann aftur um leið. Lífstíðarnálgunarbann væri sanngjarnt,“ segir Viðar Örn.
Aðspurður um hvað hann telji að hefði mátt gera betur í máli móður sinnar segist Viðar Örn geta talið upp endalausa möguleika.
„Í fyrsta lagi var nálgunarbanninu klúðrað á skrýtinn hátt. Svona menn eiga ekki að ganga lausir, það er ekki flókið. Hann er búinn að ganga alltof langt og hann þarf hjálp. Það þarf engan sérfræðing til að kveikja á því,“ segir hann.
Viðar Örn spilar sem stendur í fótbolta Ísrael og hefur einnig leikið í Kína, Noregi og Svíþjóð síðustu ár og því verið langt frá móður sinni. „Þetta hefur poppað upp annað slagið og ég er yfirleitt mjög langt í burtu og get þar af leiðandi ekkert gert. Þetta er búið að angra mig mjög mikið af því að ég veit að ef ég væri á Íslandi þá hefði ég engar áhyggur,“ segir hann.
Hann segist þó ekki geta velt sér of mikið upp úr þessu, hann þurfi að treysta því að menn vinni vinnuna sína og geri það vel.
„Ef fólk les dóminn þá sér það alveg hvað þetta var viðurstyggilegt allt saman og þú kemur aldrei vel út úr svona. Og auðvitað, ef þú færð morðhótanir annað slagið eins og hún lenti í, þá hefur það áhrif á alla. En þessi dómur er algjörlega til skammar,“ segir Viðar Örn.