Einn fangi á Litla Hrauni er álitinn það hættulegur að það þarf fjóra til fimm fangaverði til þess að hafa afskipti af honum á hverjum einasta degi. Þessi fangi heitir Mohamad Kourani sem var ákærður fyrir stórhættulega árás í matvöruversluninni OK Market í Valshverfinu þann 7. mars síðastliðinn. Árásin var tilefnislaus en myndskeið af árásinni er óhugnanlegt og sýnir hversu hættulegur og óútreiknanlegur Kourani er.
Hann nýtur alþjóðlegrar verndar á Íslandi og heldur þeirri stöðu þrátt fyrir langan afbrotaferil hér á landi á mjög skömmum tíma. Hann er fæddur árið 1993 og kom hingað til lands árið 2018. Þá er Kourani skráður með lögheimili í Reykjanesbæ – líkt og fjöldi annarra karlmanna sem koma hingað einir til lands.
Það er því ljóst að kostnaður við mögulega vistun Kourani í sex eða átta ár hleypur á hundruðum milljóna íslenskra króna.
Hefur ítrekað ráðist á fangaverði
Samkvæmt heimildum Nútímans hefur vistun Kourani haft gríðarleg áhrif á daglegan rekstur Litla Hrauns en búið er að fjölga fangavörðum á vakt vegna hans. Þrátt fyrir það hefur hegðun Kourani frá degi til dags haft keðjuverkandi áhrif á alla starfsemina og óljóst hvernig yfirvöld hyggjast tækla langtímavistun á Kourani. Hann er nefnilega ekki bara ákærður fyrir það að hafa reynt að svipta mann lífi heldur einnig fimm önnur ofbeldisbrot. Þeir ákæruliðir varða brot gegn valdstjórninni, hótanir gegn lögreglumönnum og ofbeldi gegn fangavörðum á Litla Hrauni. Þá greindi DV frá því að Kourani hefði hótað fréttastjóra miðilsins í réttarsal Héraðsdóms Reykjaness fyrir nokkrum dögum.
Héraðssaksóknari hefur krafist 6 til 8 ára fangelsisdóms yfir Kourani en dómur verður kveðinn upp þann 15. júlí næstkomandi. En hvað gera íslensk yfirvöld ef hann fær 8 ára fangelsisdóm? Miðað við stjórnlausa og ofbeldisfulla hegðun Kourani er vitað mál að hann er bæði hættulegur starfsmönnum Litla Hrauns og öðrum föngum sem þar afplána. En ef það þarf fjóra til fimm fangaverði til þess að eiga við Kourani, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á dag, þá má ætla að kostnaður vegna vistunar hans komi til með að slá öll met.
Slær met vegna kostnaðar fanga
Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu er meðalkostnaður ríkisins á fanga á Litla Hrauni 48.852 krónur á dag sem gera rúmar 17,8 milljónir á ári. Kostnaður vegna Kourani er hins vegar miklu meiri og rúmlega það. Inn í þessa upphæð vantar meira að segja ákveðin afleiddan kostnað sem fellur til í útgjöldum aðalskrifstofu Fangelsismálastofnunar sem sér um umsýslu fullnustu- og lögfræðimála, sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf – svo eitthvað sé tínt til.
Þangað til sú lagabreyting eða viðbót á sér stað er ljóst að fangaverðir á Litla Hrauni þurfa að leggja líf sitt að veði með afskiptum af Kourani hvern einasta dag.
Það er því ljóst að kostnaður við mögulega vistun Kourani í sex eða átta ár hleypur á hundruðum milljóna íslenskra króna. Heill gangur er undirlagður undir aðeins hann enda er honum ekki treyst í ljósi þess ofbeldis sem hann hefur nú þegar beitt fangaverði á Litla Hrauni. Samkvæmt heimildum Nútímans er álag á fangavörðum gríðarlegt og þá þykir viðbúnaðurinn vegna Kourani vera einsdæmi í sögu fangelsa á Íslandi. Fangaverðir hafa oft þurft að vígbúast vegna fanga en aldrei í þetta langan tíma. Heildarútgjöld Fangelsismálastofnunar voru rúmir 2,7 milljarðar árið 2023 en með vistun Kourani má draga þá ályktun að kostnaðurinn eigi eftir að hækka umtalsvert.
Stjórnlaus og öskrandi allan sólarhringinn
„Þeir þurfa að vera í hnífavestum með hjálma til að eiga við hann á hverjum degi,“ sagði einstaklingur sem afplánar dóm á Litla Hrauni við Nútímann. Þá sagði annar einstaklingur að Kourani láti öllum illum látum allan liðlangan daginn. Hann lemur á öryggisrúður, hurðar og öskrar nánast stanslaust. Þar sem hann á rétt á að fara á útisvæði og opið „sameiginlegt“ svæði öryggisdeildarinnar þá þurfa fangaverðir að eiga við hann – líkt og áður kemur fram – oft á dag.
Kourani á, samkvæmt gildandi lögum og reglum um vistun fanga á öryggisdeild, rétt á útiveru og að iðka tómstundastörf, líkamsrækt eða íþróttir í að minnsta kosti eina og hálfa klukkustund á dag. Það þýðir að Kourani þarf að yfirgefa klefa sinn. Það er þá sem hann er hvað hættulegastur, bæði sjálfum sér og öllum þeim sem fyrir vegi hans verða. Hann fær því ekki að hitta aðra fanga – hvorki á göngum fangelsisins eða þegar útivera hans stendur yfir.
Álag sem á sér enga hliðstæðu
Líkt og fjölmiðlar hafa greint frá eru fórnarlömb Kourani miklu fleiri en þau sem tengjast með beinum hætti þeim brotum sem hann hefur nú verið kærður fyrir. Einn af þeim er Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, en Kourani fékk hann á heilann árið 2020 í kjölfar máls, sem Kourani var aðili að, var fellt niður. Kourani hefur tvívegis fengið dóm vegna hótana í garð Helga og fjölskyldu hans en í viðtali við Morgunblaðið sagðist Helgi hafa þurft að biðja börnin sín síðustu þrjú ár að opna aldrei útidyrnar fyrr en þau hafa skoðað hver standi hinum megin við dyrnar í sérstöku öryggismyndavélakerfi sem hann hefur komið upp.
Á deildinni er einnig „öryggisklefi“ en hann er án allra húsgagna. Samkvæmt heimildum Nútímans hefur Kourani verið vistaður í þeim klefa vegna þeirrar hættu sem af honum stafar.
En hvers eiga íslenskir skattborgarar að gjalda? Ljóst er að gífurlegur kostnaður kemur til með að falla á ríkið vegna vistunar Kourani, hvernig sem á málið er litið. Það hefur eflaust spilað eitthvað inn í þá ákvörðun Guðrúnar Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra, að mögulega breyta íslenskum lögum svo hægt sé að afturkalla alþjóðlega vernd á grundvelli ítrekaðra og alvarlega brota. Undir það myndi Kourani falla – það er engum blöðum um það að fletta. Þangað til sú lagabreyting eða viðbót á sér stað er ljóst að fangaverðir á Litla Hrauni þurfa að leggja líf sitt að veði með afskiptum af Kourani hvern einasta dag. Álag sem á sér enga hliðstæðu í íslensku réttarvörslukerfi.
Hvernig lítur öryggisdeildin út?
Samkvæmt upplýsingum úr skýrslu Umboðsmanns Alþingis sem gerði úttekt á öryggisdeild Litla Hrauns í janúar árið 2021 eru öll húsgögn gólfföst, salerni eru óbrjótanleg og spegill úr plasti er límdur á vegg þeirra þriggja einstaklingsklefa sem eru á deildinni. Þá er sameiginlegt rými og útisvæði en eftirlitsmyndavélar eru í öllum sameiginlegum rýmum og í öryggisklefanum sjálfum. Því ber að halda til haga að aðeins einn einstaklingsklefi er í notkun þar sem ekki er hægt að vista aðra á ganginum nema Kourani. Á deildinni er einnig „öryggisklefi“ en hann er án allra húsgagna. Samkvæmt heimildum Nútímans hefur Kourani verið vistaður í þeim klefa vegna þeirrar hættu sem af honum stafar.