Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, mótmælti stöðu Laugavegarins og miðborgarinnar á fundi í borgarstjórn í nótt. Hún segir aðför að svæðinu hafa staðið látlaust síðan árið 2011 og rök og andmæli rekstraraðila á svæðinu hafi verið hundsuð.
Í bókun Vigdísar segir að vísað sé fram og til baka í skoðanakannanir til rökstuðnings þeirrar stefnu að gera Laugaveginn og nágrenni hans að göngugötu allt árið. Meirihlutinn hafi nú þegar breytt deiliskipulagi fyrir svæðið svo hægt sé að hrinda hugmyndunum í framkvæmd.
Sjá einnig: Mikil ánægja með göngugötur í Reykjavík: „Hafa haft virkilega jákvæð áhrif á mannlíf”
„Ljóst er að þvingunaraðgerðir eru í gangi fyrir þá sem þarna búa og stunda rekstur og það án nokkurs samráðs. Ljóst er að verslun og þjónusta er ekki velkomin á þetta svæði, þá er það vitað svo ekki verður um villst. Þessi vinnubrögð eru einkar ósvífin.“
Í færslu á Facebook síðu sinni segir hún að þetta komi sér og öðrum verulega á óvart. Ekkert samráð hafi verið við rekstraraðila á svæðinu né íbúa og þarna sé á ferð hreinn valdhroki og mikil ósvífni. Í athugasemdum við færsluna kvartar hún einnig yfir skorti á bílastæðum.
„Fæ ekki stæði því allir túristarnir sem gista á hótelunum teppa stæðin svona snemma á morgnana – kannski finn ég bílastæðishús sem ég get lagt í áður en öllu verður lokað og gjaldskráin hækkar um 20% 1. jan, n.k.“ skrifar Vigdís.
Hörður Ágústsson, eigandi og framkvæmdastjóri Maclands, rekur verslun á Laugaveginum. Hann segir að þegar stjórnmálamaður láti slík ummæli út úr sér þá sé viðkomandi með annað hvort mjög rangar upplýsingar eða bara ekki með allt kveikt.
Þegar stjórnmálamaður vill láta taka sig alvarlega og segir "Miðbærinn er ónýtur og rekstur er að deyja þar og það eru engin stæði"
Þá veit ég að viðkomandi er annað hvort með mjög rangar upplýsingar eða bara ekki með allt kveikt.
— Hörður Ágústsson (@horduragustsson) November 28, 2018